Botnlangi
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: vantar inngang, vantar tengla í alla grein |
Uppgötvun og saga
[breyta | breyta frumkóða]Botnlanginn hefur verið þekktur sem líffæri síðan seint á 15. öld, Leonardo da Vinci minntist á hann í skrifum sínum árið 1492. Botnlanganum var þó fyrst lýst í smáatriðum af Berengario da Carpi árið 1521. En þessu ormlaga líffæra var fyrst gefið nafnið botnlangi (appendix) árið 1530 af Vido Vidius (Ansaloni o.fl., 2009). Þessi uppgötvun er frekar seint gerð miðað við önnur líffæri og líklegasta skýringin á því er að rannsóknir á líffærum höfðu fram að því aðeins verið gerðar á dýrum sem hafa ekki botnlanga. Fyrsta þekkta aðgerðin til þess að fjarlægja botnlangann var gerð árið 1735 af Claudius Amyand á 11 ára dreng í London. Það var þó ekki þekkt fyrr en seint á 19. öld að flestir bólgusjúkdómar neðst í hægri hlið búksins orsakast vegna botnlangans [a].
Botnlangann er ekki aðeins að finna í manninum en hann finnst í öpum á borð við simpansa, górillur, órangútana og gibbona. Aðeins fá spendýr hafa líffæri svipuð og botnlanga en að auki prímata má nefna pokadýr á borð við pokarottur ( opposum) og vamba og kóalabirni og nefdýr líkt og mjónefi ( echidna) og breiðnefi ( platypus) (Smith, Parker, Kotzé, Laurin, 2013). Einnig er botnlangi í nokkrum tegundum af nagdýrum og fuglum. Botnlangi nagdýra og fugla er viðameira og mikilvægara líffæri en botnlangi manna því ef það er fjarlægt þá visna dýrin upp sökum vanþroska vegna skertrar framleiðslu mótefna, þar er botnlanginn lykil líffæri í uppbyggingu ónæmiskerfis þeirra [b].
Útlit og uppbygging
[breyta | breyta frumkóða]Í mönnum er botnlanginn er aflöng u.þ.b. sjö sentímetra tota úr eitilríkum vef sem liggur neðan úr botnristlinum ( cecum) en hann þrengist þar sem hann tengist botnristlinum. Botnlanginn hefur bæði hringlaga vöðvalög og vöðvalög sem liggja langsum. Meðalbreidd botnlangans er 0,5-1 sentímeter [c]. Eins og nafnið gefur til kynna er botnlanginn lokaður í annan endann en almennt getur útlit hans verið breytilegt milli manna, lega hans misjöfn og jafnvel hafa fundist dæmi um að hann vanti alfarið (Cave, 1936). Kenningar eru um að botnlanginn sé leifar frá forverum, og þróun hafi smám saman verið að fjarlægja hann [b]. Botnlanginn er misstór eftir tegundum. Botnlangi apa er oftast stærri en botnlangi manna, til að mynda er botnlanginn í simpönsum (Pan trolodytes) um það bil tíu sentímetra langur en hann er einnig breiðari og snúnari. Svo eru dæmi um að ekki séu mörk á milli botnlanga og botnristils og á það við órangútanapa (Pongo pymaeus) [d].
Vefjauppbygging botnlangans svipar til uppbyggingar ristilsins, slímhúð ( mucosa), slímubeður (submucosa), rákvöðvavef (muscularis externa) og hálu (serosa). Virkni botnlanga og ristils er þó frábrugðin og sá breytileiki liggur helst í að slímubeður í botnlanganum er gífurlega ríkt af eitilbúum og sérþynnu hálu (lamina propria) í slímhúðinni [e].
Tilgangur/virkni
[breyta | breyta frumkóða]Virkni og hlutverk botnlangans í mönnum er ekki enn nokkuð á huldu en hann virðist vera líffærisleif af líffæri sem í gegnum þróun hefur misst virkni og/eða tilgang sinn og það virðist sem hægt sé að fjarlægja hann án þess að það hafi teljandi áhrif á starfsemi líkamans [f][b]. Margar kenningar um tilgang hans hafa þó verið kynntar og með því að horfa til virkni hans í öðrum tegundum hefur tilgangur hans í mönnum verið skoðaður. Vegna þess að botnlanginn er ríkulega þakinn eitilvef hefur verið talið að hann eigi þátt í virkni ónæmiskerfisins [f]. Aðrar kenningar eru að botnlanginn gegni hlutverki í verndun gagnlegra baktería í meltingarveginum með því að styðja við bakteríuvöxt og veita bakteríunum svokallað “húsaskjól” [g].
Bæði þessarra atriða geta verið vísbending þess að áður en mannkynið fór að þróa með sér ákveðið hreinlæti svo sem eldun á mat, hreinu vatni og svo framvegis, hafi hann verið mikilvægt líffæri en eftir að slík siðmenning hófst fór hlutverk hans dalandi [f].
Þannig að ef botnlanginn hefur sérstakt hlutverk í manninum, jafnvel þó það sé hluti af stærra líffærakerfi, er hann skýrt dæmi um líffæri sem er ekki þróað eða hefur hætt að þróast [f].
Botnlangabólga
[breyta | breyta frumkóða]Almennt
[breyta | breyta frumkóða]Botnlangabólga er algengt ástand sem kemur fram í 250.000 sjúklingum árlega í Bandaríkjunum. Botnlangakast er algengasta orsök kviðverkja sem leiða til skurðaðgerðar [c]. Botnlangabólga getur komið fram hjá öllum aldurshópum en er þó ekki algeng hjá eldra fólki vegna þess að botnlanginn virðist styrkjast með aldrinum [h]. Algengast er að börn á aldrinum 10 til 19 ára fái botnlangabólgu og endi í botnlanganámi, þá algengast frá 10-14 ára aldri hjá karlmönnum og 15-19 ára aldurs hjá konum [i]. Hlutfall rofinna botnlanga er hærra hjá mjög ungum sjúklingum og meðal vel roskinna einstaklinga meðal annars vegna þess að hjá ungum börnum er botnlanginn þunnur og rofnar auðveldar og einnig vegna þess að greining botnlangabólgu er oft auðveldari hjá eldri sjúklingum sem geta betur tjáð einkenni sín. Hjá rosknum einstaklingum á breytt sársaukaskynjun sökum breyttrar eða skertrar taugastarfsemi þátt og einnig að aldraðir sjúklingar eru ólíklegri til þess að leita sér læknisaðstoðar á bráðamóttöku [j]. Einnig virðast börn yngri en 2 ára síður fá botnlangabólgu en það er vegna þess að á fyrstu mánuðum í þroska barna er botnlanginn í laginu eins og trekt og stíflast því síður en um 2 ára aldur er hann orðinn hólklaga og því líklegri til að stíflast [k]. Algengast er að sjúkdómurinn greinist hjá einstaklingum á aldrinum 20 til 30 ára og karlar virðast eiga í meiri hættu á að fá botnlangabólgu en konur [i][l]. Það eru um 6-7% líkur á því að manneskja fái botnalangabólgu á lífsleiðinni en eftir 70 ára aldur er áhættan á botnlangabólgu komin niður fyrir 1%. Áhættan er 1 á móti 35 hjá karlmönnum en 1 á móti 50 hjá konum. Botnlangabólga er sjaldgæf í þróunarlöndunum þar sem mataræði er jafnan minna unnin fæða og trefjaríkari. Þó virðist vera að tilfellum botnlangabólgu hafi fækkað undanfarna áratugi. Ástæðan er ekki þekkt en mögulega vegna þess að trefjaríkt fæði er aftur að aukast í þróuðum ríkjum eftir að hafa dalað á tímabili [c].
Einkenni
[breyta | breyta frumkóða]Botnlangabólga hefst oftast með verk í kvið rétt við naflann sem ágerist með tímanum, sérstaklega þegar menn hreyfa sig. Ógleði, uppköst og niðurgangur eru einnig einkennandi. Vægur hiti getur einnig verið einkennandi [l]. Sex til tólf klukkustundum eftir að botnlangabólga hefst fer bólgan í botnlanganum að teygja sig til annarra líffæra. Verkur sem var áður frekar óljós og erfitt að staðsetja verður að verk sem auðvelt er að staðsetja og er mjög sár [c]. Um það bil 20% af sjúklingum sem fá botnlangabólgu, reynast svo hafa sprunginn botnlanga og því fylgir oft lífhimnubólga sem getur annaðhvort verið staðbundin eða útbreidd [l].
Orsök
[breyta | breyta frumkóða]Orsökin er ekki alltaf ljós en oftast er einhver hindrun á rennsli frá botlanganganum sem getur verið æxli, stækkaður eitilvefur eða saurspörð sem stífla, en það er algengasta orsökin. Ekki er til nein ein rannsóknir eða aðferð þar sem með fullvissu er hægt að segja um hvort botnlangabólga sé til staðar eða ekki. Þess vegna þarf að skoða hvert tilfelli vel fyrir sig og ítarleg líkamsskoðun þarf að fara fram þar sem sjúkrasaga einstaklings og mat frá skurðlækni er tekið inn í myndina. Stundum er gerður uppskurður þar sem botnlanginn reynist heilbrigður [l][m].
Meðhöndlun
[breyta | breyta frumkóða]Botnlangabólga er meðhöndluð með skurðaðgerð með svæfingu og botnlanginn er fjarlægður. Einstaklingur er látinn fasta og gefinn vökvi í æð. Í svæfingunni er botnlanginn fjarlægður annað hvort með speglunartækni þar sem gerð eru þrjú lítil göt á kviðvegginn eða með hefðbundinni skurðaðgerð þar sem gerður er lítill skurður hægra megin rétt neðan við nafla. Ef aðgerðin gengur vel fyrir sig útskrifast einstaklingur eftir um það bil þrjá daga. Bíða þarf eftir því að þarmarnir taki aftur til starfa, loft þarf að ganga niður og sjúklingurinn þarf að vera hitalaus. Ef botnlanginn hefur sprungið þarf að gefa sýklalyf í nokkra daga [l].
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ansaloni, Catena & Pinna, 2009
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Jónas Magnússon, 2000
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Prystowsky o.fl., 2005
- ↑ Jón Már Halldórsson, 2009
- ↑ Kooij, Sahami, Meijer, Buskens & te Velde, 2016
- ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 Ansaloni o.fl., 2009
- ↑ Bollinger, Barbas, Bush, Lin, Parker, 2007
- ↑ Lunca, Bouras,, & Romedea, 2004
- ↑ 9,0 9,1 Addiss, Shaffer, Fowler, & Tauxe1990
- ↑ Chang, Lin, & Huang, 2006
- ↑ Dahal, 2019
- ↑ 12,0 12,1 12,2 12,3 12,4 Doktor.is, 2010
- ↑ Landspítali, á.á
Heimildaskrá
[breyta | breyta frumkóða]- Addiss, D. G., Shaffer, N., Fowler, B. S., & Tauxe, R. V. (1990). The epidemiology of appendicitis and appendectomy in the United States. American journal of epidemiology, 132(5), 910–925. https://doi.org/10.1093/oxfordjournals.aje.a115734
- Cave, AJ.(1936). Appendix Vermiformis Duplex. Journal of anatomy, 70(Pt 2):283-292 Chang, Y. T., Lin, J. Y., & Huang, Y. S. (2006). Appendicitis in children younger than 3 years of age: an 18-year experience. The Kaohsiung journal of medical sciences, 22(9), 432-436. https://doi.org/10.1016/S1607-551X(09)70334-1
- Doktor.is. (2010, 10. nóvember). Hvernig lýsir botnlangabólga sér? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57574
- Geha R Dahal (2019). Acute appendicitis in children: How is it different than in adults ?. Grande. Medical Journal, 1(1), 35-40. https://doi.org/10.3126/gmj.v1i1.22404
- Heather F. Smith, William Parker, Sanet H. Kotzé, Michel Laurin (2013). Multiple independent appearances of the cecal appendix in mammalian evolution and an investigation of related ecological and anatomical factors. C. R. Palevol, 12 (2013), 339–354
- Jón Már Halldórsson. (2009, 12. október). Eru apar með botnlanga og ef svo er, geta þeir þá fengið botnlangakast? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=53653
- Jónas Magnússon. (2000, 16. júní). Til hvers er botnlanginn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=526
- Kooij, I.A., Sahami, S., Meijer, S.L., Buskens, C.J. and te Velde, A.A. (2016), The immunology of the vermiform appendix: a review of the literature. Clin Exp Immunol, 186: 1-9. https://doi.org/10.1111/cei.12821
- Landspítali (á.á.) Botnlangabólga. Sótt af https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/fraedsluefni/botnlangabolga/
- Lunca, S., Bouras, G., & Romedea, N. S. (2004). Acute appendicitis in the elderly patient: diagnostic problems, prognostic factors and outcomes. Romanian journal of gastroenterology, 13(4), 299–303.
- Randal Bollinger, R., Barbas, A. S., Bush, E. L., Lin, S. S., & Parker, W. (2007). Biofilms in the large bowel suggest an apparent function of the human vermiform appendix. Journal of theoretical biology, 249(4), 826–831. https://doi.org/10.1016/j.jtbi.2007.08.032
Myndaskrá
[breyta | breyta frumkóða]Mynd 1. Staðsetning botnlanga Mynd:Blausen_0043_Appendix_Child.png [sótt 3.april 2021]
Mynd 2. Þverskurður af botnlanga https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/cei.12821 [sótt 13. apríl 2021]