[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

A Coruña

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ráðhúsið í A Coruña.

A Coruña (spænska: La Coruña, enska: Corunna) er borg og sveitarfélag í sjálfstjórnarhéraðinu Galisíu á norður-Spáni. Borgin liggur við Ártabro-flóa og er mikilvæg höfn. Hún er sú næststærsta í héraðinu og telur um 245.000 íbúa (2016). Borgin tilheyrir ennfremur samnefndri sýslu.

A Coruña var miðstöð konungdæmisins Galisíu frá 16. til 19. aldar og svo stjórnsýslumiðstöð svæðisins frá 1833 til 1982 en þá tók Santiago de Compostela við hlutverkinu.

Keltneskir ættbálkar héldu til á svæðinu áður en Rómverjar komu til þess á 2. öld fyrir Krist. Rómverjar áttuðu sig á mikilvægi legu borgarinnar og varð hún mikilvæg í hafnarverslun. Júlíus Sesar kom til borgarinnar, Brigantum á þeim tíma, 62 f. Kr. í tilgangi þess að stofna til málmverslunar við nálæg svæði (nútíma-Portúgal, -Frakkland og -England).

Á 1. og 2. öld óx borgin en eftir 4. öld tók henni að hnigna. Árásir Normanna og víkinga léku borgina grimmt á 9. öld og margir íbúanna flýðu inn í land. Frá 10. til 15. aldar var biskupinn af Santiago de Compstela mikilvægasta pólitíska afl yfir borginni. Seint á 15. öld varð spænska krúnan; kaþólsku konungshjónin Ferdinand og Ísabella, með yfirráð yfir borginni. Á 16. öld urðu átök á sjó milli Englendinga og Spánverja. Francis Drake sat um borgina árið 1585 en þurfti frá að hörfa. Árið 1809 voru hins vegar Bretar í liði með Spánverjum í Napóleonsstyrjöldunum og náðu að verja borgina frá Frökkum.

Í byrjun 20. aldar voru íbúar borgarinnar um 45.000. Í dag eru til að mynda fiskveiðar, vefnaðariðnaður, ál- og olíuvinnsla mikilvægar atvinnugreinar.

Deportivo de La Coruña er knattspyrnulið borgarinnar.