[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Þingvallavegur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þingvallavegur eða þjóðvegur 36 er stofnvegur á sunnanverðu Íslandi. Vegurinn samanstendur af aðalleiðinni frá Reykjavík til Þingvalla, auk gamla Sogsvegar niður með Þingvallavatni og Soginu austanmegin sem tengir Þingvallasveit við Selfoss og nágrenni. Vegurinn er 68 km að lengd, þar af eru 33 km frá Vesturlandsvegiþjónustumiðstöðinni á Þingvöllum.

Þingvallavegur telst hafa upphafspunkt við Biskupstungnabraut (35) í Þrastarskógi og liggur þaðan upp með Soginu framhjá Ljósafossvirkjun og Steingrímsstöð. Fjöldi sumarhúsabyggða er við veginn á þessum slóðum. Nálægt Gjábakka og vegamótum Lyngdalsheiðarvegar (365) greinist vegurinn frá hinum eiginlega Þingvallavegi (361) og fylgir vegi sem gerður var fyrir þjóðhátíðarárið 1974 ofar í landinu. Kemur gamli Þingvallavegurinn aftur á hinn nýja við þjónustumiðstöðina. Frá þjónustumiðstöðinni liggur einnig leiðin upp á Uxahryggi (52) og Kaldadal (550).

Vegarkaflinn fyrir ofan þinghelgina var tekinn í notkun 1965 og þar með var lokað fyrir umferð um Almannagjá. Fyrir vestan Hakið liggur leiðin í landi Kárastaða, framhjá Vinaskógi og upp á Mosfellsheiði. Mætir vegurinn Kjósarskarðsvegi (48) á háheiðinni. Lengi framan af 20. öldinni lá vegurinn talsvert sunnar og um sjálfa Mosfellsheiðina og tók stefnuna á Miðdal fyrir ofan Hafravatn. Núverandi vegur liggur hinsvegar nyrst á Mosfellsheiðinni og fram hjá Leirvogsvatni, og heldur síðan niður Mosfellsdal út að Vesturlandsvegi fyrir ofan Mosfellsbæ.

Vegurinn frá Reykjavík var ekki að fullu malbikaður fyrr en stuttu fyrir lýðveldisafmælið 1994, og hluti af Sogsveginum var enn með malarslitlagi fram til ársins 2000. Oftar en ekki hefur því verið unnið að lagfæringum á veginum þegar stórhátíðar á Þingvöllum hafa verið á döfinni.

Hátíðarhöld

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðvegahátíðin mikla

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1994 var ætlunin að stefna sem flestum landsmönnum til Þingvalla á hátíðarhöldin 17. júní vegna 50 ára afmælis lýðveldisins, en vegna lélegrar umferðarstjórnunar tepptist vegurinn báðum megin frá svo margir urðu að sitja tímunum saman í umferðarteppu. Hátíðin hefur stundum verið kölluð þjóðvegahátíðin mikla með tilvísun í þennan atburð. Þessi atburður olli því að gerðar voru ýmsar ráðstafanir við Kristnihátíðina árið 2000, og umferð aðeins leyfð í aðra hvora áttina á báðum akreinum eftir því hvaða tími dagsins var. Gekk umferðarflæðið mun betur fyrir sig þá.