Siglingar
Siglingar eru sú íþrótt að sigla seglskipi með því að haga seglbúnaði, stýri og kili þannig að kraftur vindsins sé nýttur til að stjórna bátnum og knýja hann áfram. Góðir siglingamenn hafa reynslu af viðbrögðum í ýmsum veðrum og sjólagi og þekkingu á seglskipum. Siglingar eru í dag einkum stundaðar sem afþreying sem skipta má í grófum dráttum í kappsiglingar og skemmtisiglingar. Siglingakeppnir eru haldnar í kjölbátasiglingum, sem skiptast í úthafssiglingar og strandsiglingar, og kænusiglingum á minni kænum.
Keppt er í að sigla seglbáti tiltekna leið á sem stystum tíma. Bátarnir eru af ýmsum stærðum og gerðum og er skipt í tvo aðalflokka, kjölbáta (með föstum kili) og kænur (með lausum kili). Siglingaleiðir eru mislangar, gjarnan þríhyrnings- eða trapisulaga og afmarkaðar með baujum. Í blönduðum keppnum er gjarnan notast við forgjafarkerfi til að jafna ólíkar gerðir báta.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Siglingar hafa haft gríðarmikla þýðingu fyrir þróun siðmenningar. Elstu myndir af segli eru frá Kúveit frá því um 3500 f.Kr. Þróun seglskipa gerði Evrópumönnum á 15. öld kleift að fara í langa könnunarleiðangra og sigla um svæði þar sem óveður eru tíð.
Talið er að siglingar verði að íþrótt á 17. öld. Fyrsta siglingakeppnin fór fram 1661 á Englandi og fyrsti siglingaklúbburinn var stofnaður 1775. Fyrstu bátarnir voru kjölbátar, en síðar byrjuðu Hollendingar að smíða báta sem ekki voru eins djúpristir og því hægt að sigla þeim á vötnum. Slíkur bátur er Flying Dutchman (Hollendingurinn fljúgandi), sem byrjað var að smíða um 1950.
Siglingar eru vatnaíþrótt og urðu Ólympíugrein á Sumarleikunum 1900. Flest nútímaseglskip eru slúppur með eitt mastur, eitt stórsegl og eitt framsegl en stór fjölmastra seglskip eru oftast rekin sem skólaskip til að þjálfa sjómenn í flotadeildum herja eða sjómannaskólum eða notuð sem leikmynd fyrir kvikmyndir.
Siglingar á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi hafa siglingar verið stundaðar frá upphafi vega. Árabátaútgerðin reiddi sig ekki síður á segl en árar og með þilskipaútgerð á 18. öld komust stærri seglskútur í eigu Íslendinga. Undir lok 19. aldar stunduðu íslenskar útgerðir fiskveiðar með stórum tvímastra kútterum en upp úr aldamótunum tóku vélarnar við á bæði stærri skipum og minni bátum. Reiðabúnaður var samt áfram algengur öryggisbúnaður ef vélin bilaði.
Þegar farið var að ræða um skipulega iðkun íþrótta á Íslandi upp úr miðri 19. öld voru siglingar meðal þeirra íþróttagreina sem taldar voru hentugar fyrir íslenskar aðstæður, ásamt kappróðrum, kappreiðum og glímu. Fyrsta skipulega kappsiglingin sem sögur fara af var haldin í tengslum við héraðshátíð Eyfirðinga á Akureyri 1890. Eins var keppt í siglingum á þjóðhátíð Reykvíkinga 2. ágúst 1898. Þrír bátar þreyttu keppni í Víkinni. Keppnin þótti takast illa, bátarnir voru ekki rétt búnir og alls kyns óhöpp urðu.
Kappsiglingar á kænum voru stundaðar að einhverju marki á millistríðsárunum og fyrsti siglingaklúbburinn var Yachtklúbbur Reykjavíkur sem var stofnaður árið 1944, en hann varð skammlífur. Á Akureyri var farið að stunda kappsiglingar skipulega á 6. áratug 20. aldar á Pollinum og Sjóferðafélag Akureyrar, síðar kallað Nökkvi, var stofnað árið 1963. Ári áður var siglingaklúbburinn Siglunes stofnaður í Fossvogi af Æskulýðsráði Reykjavíkur og Æskulýðsráði Kópavogs. Siglingaklúbburinn Óðinn var stofnaður í kringum kjölbátasiglingar í Kópavogi 1965. Ungt fólk sem lærði siglingar í Siglunesi stofnaði síðan fyrstu siglingafélögin á höfuðborgarsvæðinu, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Siglingafélagið Ými í Kópavogi, árið 1971. Þessi fjögur félög, Brokey, Óðinn, Ýmir og Sjóferðafélag Akureyrar, stofnuðu Siglingasamband Íslands árið 1973. Næstu ár voru stofnuð siglingafélög í Garðabæ (Vogur), Hafnarfirði (Siglingaklúbburinn Þytur), Ísafirði (Sæfari) og Keflavík (Knörr), en bæði Vogur og Knörr lögðu síðar upp laupana. Ungmennafélagið Snæfell í Stykkishólmi hóf siglingaþjálfun árið 2006 og árið 2009 var Siglingaklúbburinn Drangey stofnaður á Sauðárkróki.
Íslendingar tóku fyrst þátt í keppni í siglingum á Sumarólympíuleikunum 1984 og 1988 á 470-kænu. Hafsteinn Ægir Geirsson keppti á Laser á Sumarólympíuleikunum 2000 og 2004.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]Saga keppnisgreina - Safnasvæðið á Akranesi Geymt 27 september 2007 í Wayback Machine