Lvív
Lvív | |
---|---|
Land | Úkraína |
Íbúafjöldi | 718.000 (2021) |
Flatarmál | 192,01 km² |
Póstnúmer | 79000 |
Vefsíða sveitarfélagsins | http://www.city-adm.lviv.ua |
Lvív (úkraínska: Львів, Ľviv, pólska: Lwów, þýska: Lemberg, rússneska: Львов, Ľvov, latína: Leopolis) er borg í vesturhluta Úkraínu. Hún er sjöunda stærsta borg landsins með um 718.000 íbúa (2021). Lvív er stærsta borg vestur-Úkraínu og höfuðborg Lvívfylkis. Borgin var höfuðborg konungsríkisins Galisía-Volhynía sem varð til við hrun Garðaríkis á miðöldum. Síðar var hún höfuðborg Rúþeníu innan Pólsk-litáíska samveldisins. Eftir uppskiptingu fengu Habsborgarar landið í sinn hlut og gerðu Lvív, sem nú hét Lemberg, að höfuðborg Konungsríkisins Galisíu af Austurríska-Ungverska keisaradæminu frá 1772-1918. Á millistríðsárunum tilheyrði borgin Öðru pólska lýðveldinu en eftir stríð varð hún hluti af Sovétríkjunum innan Sovétlýðveldisins Úkraínu.
Árið 2022 fór þar í gegn fjöldi flóttamanna, aðallega á leið til Póllands, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Rússar gerðu loftárásir á borgina og nágrenni hennar.
Borgin er sögulega höfuðstaður héraðsins Galisíu. Hún slapp að mestu við eyðileggingu í Síðari heimsstyrjöld. Miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO. Í borginni eru Háskólinn í Lvív (stofnaður 1661), Tækniskólinn í Lvív og Óperu- og balletthúsið í Lvív.
Lvív varð vinaborg Reykjavíkur árið 2023. [1]
Tilvísanir
- ↑ Reykvíkingar skipta Lvív inn fyrir Moskvu Vísir, 24/5 2023