[go: up one dir, main page]

SWAPO

Namibískur stjórnmálaflokkur

Alþýðusamtök Suðvestur-Afríku (enska: South West Africa People’s Organisation; skammstafað SWAPO) er namibískur stjórnmálaflokkur sem hefur setið við stjórn ríkisins frá því að Namibía hlaut sjálfstæði árið 1990. Flokkurinn var áður marxísk skæruliðahreyfing sem barðist fyrir sjálfstæði landsins undan Suður-Afríku. Flokkurinn mildaði stefnu sína eftir sjálfstæði landsins og hefur í seinni tíð færst nær mið- eða miðvinstristefnu í stjórnmálum með ívafi af kapítalisma og nýfrjálshyggju.[1] SWAPO nýtur mests fylgis meðal Ovambo-þjóðflokksins, sem er um helmingur Namibíumanna.[2]

Alþýðusamtök Suðvestur-Afríku
South West Africa People’s Organisation
Fáni SWAPO
Fáni SWAPO
Forseti Netumbo Nandi-Ndaitwah (starfandi)
Varaforseti Netumbo Nandi-Ndaitwah
Aðalritari Sophia Shaningwa
Framkvæmdastjóri Austin Samupwa
Stofnár 1960; fyrir 64 árum (1960)
Höfuðstöðvar Erf 2464, Hans-Dietrich Genscher Street, Katutura, Windhoek, Namibíu
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frá 2017: Sósíalismi með namibískum einkennum
Frá sjálfstæði til 2017: Kapítalismi
Fyrir sjálfstæði: Sósíalismi, marx-lenínismi
Einkennislitur Rauður  
Sæti á þjóðþinginu
Sæti á þjóðarráðinu
Vefsíða swapoparty.org

Söguágrip

breyta

Forveri SWAPO var Alþýðuráð Ovambolands (e. Ovamboland People's Congress), sem síðar var kallað Alþýðusamtök Ovambolands (e. Ovamboland People's Organization eða OPO). OPO var stofnað að undirlagi verkamanna og námsfólks undir forystu Andimba Toivo ya Toivo árið 1957 til þess að berjast gegn hvítri minnihlutastjórn Suður-Afríkumanna í Namibíu. Einn af leiðtogum OPO, Sam Nujoma, stofnaði deild samtakanna í namibísku höfuðborginni Windhoek og efndi þar til mótmæla gegn fyrirætlunum yfirvalda um að koma á aðskilnaðarstefnu í borginni. Þann 10. desember 1959 beittu yfirvöld ofbeldi til þess að tvístra mótmælendum með þeim afleiðingum að 13 Namibíumenn voru drepnir. Forystumenn hreyfingarinnar neyddust margir til að flýja land eða fara í felur.[2]

Árið 1960 var OPO endurskipulagt og nafninu breytt í Alþýðusamtök Suðvestur-Afríku (e. South West Africa People’s Organisation eða SWAPO). Nafnbreytingin var gerð til þess að undirstrika að flokkurinn væri ekki einungis málsvari Ovambo-þjóðarbrotsins, heldur væri markmið hans að sameina alla Namibíumenn í sjálfstæðisbaráttu gegn minnihlutastjórninni. SWAPO náði talsverðu fylgi meðal verkafólks og kom því upp deildum á námusvæðum og suðurhéruðum landsins. Flokkurinn var aldrei formlega bannaður en meðlimir hans sættu þó ofsóknum yfirvalda og voru gjarnan fangelsaðir eða myrtir.[2]

Árið 1966 ákvað hópurinn að taka upp vopnaða baráttu gegn yfirvöldum samhliða aukinni kúgun í landinu. Alþjóðlegur stuðningur við SWAPO jókst verulega árið 1966 þegar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti að binda enda á umboðsstjórn Suður-Ameríku í Namibíu og árið 1971 þegar Alþjóðadómstóllinn lýsti yfir að hernám Suður-Afríkumanna í Namibíu væri ólöglegt. Hernaðararmur SWAPO, Þjóðfrelsisher Namibíu, háði vopnaða baráttu gegn hersveitum minnihlutastjórnarinnar í landamærastríðinu í Suður-Afríku á meðan flokksfélagar komu upp skrifstofum víða um heim til að vinna sjálfstæðisbaráttunni frekari stuðning. Sömuleiðis óx sjálfstæðisbaráttu SWAPO ásmegin árið 1975 þegar nágrannaríkin Angóla og Mósambík fengu sjálfstæði undan nýlenduyfirvöldum og stjórnir ríkjanna tóku upp opinberan stuðning við SWAPO.[2]

Eftir rúmlega 20 ára stríð féllust Suður-Afríkumenn í maí árið 1988 á að ganga til viðræðna um framkvæmdaráætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði Namibíu. Kosið var til stjórnlagaþings undir umsjá friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna á dögunum 7. – 11. nóvember 1989 þar sem SWAPO fékk 57% atkvæða.[2][3][4] Namibía hlaut fullt sjálfstæði þann 21. mars 1990 og Sam Numoja, forseti SWAPO, varð fyrsti forseti sjálfstæðrar Namibíu.

SWAPO hefur unnið allar þingkosningar í Namibíu frá því að landið hlaut sjálfstæði og hefur yfirleitt aukið við meirihluta sinn. Í þingkosningum ársins 2019 tapaði flokkurinn sætum en viðhélt þó afgerandi meirihluta á þinginu.[5] Vegna hlutverks síns í sjálfstæðisbaráttu landsins hefur flokkurinn haft forskot á aðrar stjórnmálahreyfingar og flokksmenn hafa nýtt þessa sérstöðu til að koma flokknum vel fyrir í stjórnmálakerfinu og gera stjórnarandstöðuflokkum erfitt fyrir.[1] Forseti Namibíu úr SWAPO frá árinu 2015 var Hage Geingob. Hann lést í embætti í febrúar 2024.[6]

Stefnumál og starfsemi

breyta

Á tíma sjálfstæðisbaráttunnar aðhylltist SWAPO marx-lenínisma en frá sjálfstæði hafa talsmenn flokksins sagt hann vera hlynntan lýðræðislegum sósíalisma. Flokkurinn er aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Flokkurinn styður blandað hagkerfi sem felur meðal annars í sér stuðning við eignarréttindi. Innanflokksskipulag SWAPO einkennist enn nokkuð af marxískum uppruna hans og endurspeglast meðal annars í því að innan flokksins starfar stjórnarnefnd eða politburo að hætti gamalla kommúnistaflokka.[1]

Flokkurinn þykir hafa hneigst lengra til hægri á síðari árum og tekið upp ýmsar stefnur í anda nýfrjálshyggju.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Baldur S. Blöndal (27. nóvember 2019). „Hvers konar stjórnmálaflokkur er SWAPO í Namibíu?“. Vísindavefurinn. Sótt 20. febrúar 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Gylfi Páll Hersir (1. ágúst 1989). „Namibía: Aldarlöng nýlendukúgun“. Réttur.
  3. „Swapo-samtökunum spáð sigri“. Dagblaðið Vísir. 7. nóvember 1989.
  4. Dagur Þorleifsson (14. apríl 1989). „Blóðugt klúður“. Þjóðviljinn.
  5. Davíð Stefánsson (2. desember 2019). „For­setinn og SWA­PO töpuðu en sigruðu þó“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. janúar 2022. Sótt 3. júní 2021.
  6. Rafn Ágúst Ragnarsson (4. febrúar 2024). „For­seti bendlaður við Samherjamálið látinn“. Vísir. Sótt 4. febrúar 2024.