Royal Engineers A.F.C.
Royal Engineers A.F.C. er enskt knattspyrnulið skipað meðlimum í verkfræðideild breska hersins. Félagið kom mjög við sögu í árdaga knattspyrnuíþróttarinnar í Englandi áður en atvinnumennska ruddi sér til rúms og keppti í fyrsta úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Frá 1888 hefur félagið að mestu keppt innan Knattspyrnusambands breska hersins við kapplið annarra herdeilda.
Saga
breytaFrancis Marindin majór og síðar forseti Enska knattspyrnusambandsins er talinn hafa stofnað knattspyrnulið innan verkfræðideildar hersins árið 1863, þótt stofnárið sé nokkuð á reiki. Marindin var fyrirliði Royal Engineers í fyrsta bikarúrslitaleiknum og átti eftir að reynast áhrifamikill fyrir þróun fótboltans, bæði sem dómari og stjórnandi.
Royal Engineers voru í hópi fimmtán liða sem skráðu sig til leiks þegar Enska bikarkeppnin var haldin í fyrsta sinn 1871-72. Úrslitaleikurinn var á milli Wanderers og Royal Engineers. Fyrrnefnda félagið var hálfgerð stofnun í fótboltasamfélaginu, skipað mörgum af helstu forystumönnum knattspyrnusambandsins. Liðsmenn Wanderers þóttu gríðarlega hraustir og miklir atgervismenn. Lið verkfræðinganna var á hinn bóginn af mörgum talið fulltrúar nýrrar leikaðferðar sem treysti ekki bara á líkamlegan styrk heldur skipulagða spilamennsku, þar sem liðsfélagar reyndu samleik og skipulögð hlaup fram og aftur í stað þess að spyrna bara fram á við og allir eltust við knöttinn. Þessum fyrsta úrslitaleik lauk með 1:0 ósigri Royal Engineers, þar sem Marindin majór var fyrirliði.
Aftur töpuðu Royal Engineers í úrslitum bikarkeppninnar tveimur árum síðar, í það skiptið gegn Oxford University A.F.C.. Eitt af því sem stóð liði verkfræðinganna fyrir þrifum var að liðsmennirnir voru oft sendir landa á milli með skömmum fyrirvara til að þjónusta hersveitir erlendis.
Árið 1875 urðu Royal Engineers bikarmeistarar í fyrsta og eina skipti. Mótherjarnir voru Old Etonians F.C. og skildu liðin jöfn 1:1, sem þýddi að í fyrsta sinn þurfti annan úrslitaleik. Sú viðureign fór fram í strekkingsvindi og þurfti að grípa til framlengingar, þar sem Royal Engineers skoruðu tvívegis.
Fjórði og síðasti bikarúrslitaleikur Royal Engineers var árið 1878. Andstæðingarnir í úrslitaleiknum voru Wanderers, sigurvegarar tveggja fyrri ára. Wanderers voru almennt taldir sigurstranglegri og fóru með sigur af hólmi 3:1. Að leik loknum átti að færa liðinu bikarinn til eignar líkt og reglur keppninnar gerðu ráð fyrir, en leikmenn Wanderers ákváðu að skila verðlaunagripnum gegn loforði um að ekkert lið gæti unnið hann til eignar.
Með uppgangi atvinnumennsku í fótboltanum hneig sól áhugamannaliða á borð við Royal Engineers til viðar á skömmum tíma. Liðið hætti að taka þátt í bikarkeppninni en einbeitti sér að keppni áhugamannaliða.
Titlar
breyta- (1) 1874-75