[go: up one dir, main page]

Klemus Bjarnason (um 16451692) er síðasti Íslendingurinn sem dæmdur var til dauða fyrir galdra. Það var árið 1690, en aftakan fór aldrei fram því Danakonungur sem fáum árum áður hafði gefið út tilskipun um að hann fengi alla dauðadóma til skoðunar breytti dómnum í útlegð frá Íslandi.

Galdramál Klemusar hófst á Bassastöðum við Steingrímsfjörð á Ströndum í ágúst 1688 með því að Kolbeinn Jónsson, annar ábúenda á bænum Hrófbergi, lagði fram kæru á hendur honum fyrir að hafa með fjölkynngi og fordæðuskap valdið "stórkostlegri veiki og kvalræðis krankleika“ sem hafði dregið konu hans til dauða.

Sýslumaðurinn Rögnvaldur Sigmundsson í Innri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu tók málið fyrir á þriggja hreppa þingi að Hrófbergi í september. Þá hafði bæst við önnur kæra frá hinum ábúendanum á Hrófbergi, Jóni Bjarnasyni, um að Klemus hafi verið valdur að veikindum konu hans Ólafar Bjarnadóttur sem meðal annars áttu að hafa valdið því að hún lagðist í flakk á milli bæja.

Klemus hafði áður verið orðaður við galdra og haft á sér illt orð allt frá barnæsku. Aftur var þingað í málinu vorið 1690 og málinu síðan vísað til alþingis. Niðurstaðan á Öxarárþingi varð sú að Klemus „skuli á lífinu straffast og í eldi brennast.“

Sýslumanni var falið að geyma fangann áfram. Hann leitaði álits amtmanns varðandi aftökuna og var skipað að geyma Klemus í ár á meðan amtmaður leitaði álits í Kaupmannahöfn. Þaðan barst svo kóngsbréf árið eftir og var dóminum breytt í ævilanga útlegð. Klemus lést svo úr sótt í Kaupmannahöfn veturinn eftir.

Sjá einnig

breyta