[go: up one dir, main page]

Grindhvalur eða marsvín (fræðiheiti: Globicephala melas, einnig nefndur Globicephala melaena), er allstór tannhvalur af ættkvísl grindhvala (Globicephala). Í ættkvíslinni er ein önnur tegund, flipahvalur (Globicephala macrorhynchus), en hún lifir í hlýrri sjó í belti umhverfis jörðina milli 50°N og 40°N.

Grindhvalur einnig marsvín

Stærðarsamanburður við meðalmann
Stærðarsamanburður við meðalmann
Ástand stofns
Gögn vantar (IUCN) [1]
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Tannhvalir (Odontoceti)
Ætt: Höfrungaætt (Delphinidae)
Ættkvísl: Grindhvalir (Globicephala)
Tegund:
G. melas

Tvínefni
Globicephala melas
Traill, 1809
Útbreiðslusvæði grindhvals
Útbreiðslusvæði grindhvals

Lýsing

breyta
 
Horn grindhvals

Grindhvalurinn er sívalur um búkinn, gildastur framan við miðju en mjókkar til beggja enda. Hausinn er stuttur en með hátt og kúpt enni sem skagar fram yfir stutt trýnið, í hvorum skolti eru 8-13 tennur. Hornið er aftursveigt og framan við mitt bak. Bægslin eru löng og mjó, lengd þeirra getur verið allt að 30% af heildarlengd dýrsins.

Talsverður stærðarmunur er á kynjunum, kýrnar er 4,3 til 5,1 metrar á lengd og allt að 900 kg á þyngd. Tarfarnir eru 5,5 til 6,2 metrar og verða allt að 1700 kg.

Kálfarnir fæðast dökkgráir og yngri hvalir geta haft misdökka flekki. Fullorðin dýr eru svört eða dökkbrún fyrir utan að hvalurinn hefur hvítan blett á bringunni fyrir framan bægslin.

Útbreiðsla og hegðun

breyta

Grindhvalir skiptast í tvær undirtegundir, Globicephala melas melas sem finnst á tempruðum og kaldtempruðum svæðum í Norður-Atlantshafi og Globicephala melas edwardii, sem lifir allt í kringum Suðurskautslandið. Norður-Atlantshafsstofninn heldur til á úthöfum á vetrum en fylgir smokkfiskum upp að landgrunninu á sumrin.[2] Fæðan er einkum smokkfiskar en grindhvalurinn étur einnig fiska.

Grindhvalurinn er eindregið hópdýr, í hverri hjörð geta verið allt frá nokkrum dýrum upp í mörg þúsund. Algengt er að grindhvalahópar blandist öðrum hvölum, sérstaklega höfrungum. Grindhvalir synda iðulega í hópum á land upp, hvað þessu veldur er óþekkt. Samstaða hópsins er svo sterk að þegar fremri hluti hans hefur hlaupið á land fylgja þeir sem utar eru hinum beint í opinn dauðann.[3]

Veiðar og fjöldi

breyta

Íslendingar hafa aldrei veitt grindhval með skipulögðum hætti, en strandaðir hvalir hafa verið nýttir í aldaraðir. Áður var gjarnan reynt að reka hvalina á land þegar til þeirra sást.[4] í Færeyjum er hins vegar löng hefð fyrir grindhvalaveiðum og fylgir hún nákvæmum reglum, allt frá því hvernig boð berast um grind og hvernig skipta eigi aflanum milli sveitarfélaga. Til eru skrár yfir veiðar Færeyingar allt aftur til 1584 og sýna þær að veiðarnar hafa sveiflast frá 800 til 2000 dýrum á ári. Við Nýfundnaland hafa verið stundaðar umfangsmiklar veiðar á grindhval á seinnihluta 20. aldar og virðast þær hafa gengið mjög á stofninn á því svæði.[5]

Umfangsmikil talning var gerð á grindhvölum í Norðaustur-Atlantshafi 1989 og sýndu þær að stofnstærðin var um 780 þúsund dýr.[6] Við hvalatalningu árið 2015 var talið að nálægt 350.000 dýr lifðu í Norður-Atlantshafi.[7] Stofnstærð á Norðvestur-Atlantshafi og á suðurhveli er hins vegar óþekkt.

Tilvísanir

breyta
  1. Taylor o. fl. 2008
  2. Hoydal og Lasten, 1993
  3. Jóhann Sigurjónsson o. fl, 1993
  4. Lúðvík Kristjánsson, 1986
  5. Hoydal og Lasten, 1993
  6. Buckland, o.fl. 1993
  7. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).

Heimildir

breyta
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Bjarni Sæmundsson, Íslensk dýr II: Spendýrin (Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 1932).
  • Buckland S.T., D. Bloch, K.L. Cattanach, Þorvaldur Gunnlaugsson, K. Hoydal, S. Lens og Jóhann Sigurjónsson, „Distribution and abundance of long-finned pilot whales in the North Atlanic, estimated from NASS-87 and NASS-89 data“. Report of the International Whaling Commission Special issue 14 (1993): 33-49.
  • Hoydal K. og L. Lasten, „Analysis of Faroese catches of pilot whales (1700-1992), in relation to environmental variations“. Report of the International Whaling Commission, Special issue 14 (1993): 89-106.
  • Jóhann Sigurjónsson, Gísli A. Víkingsson og C. Lockyear, „Two mass strandings of pilot whales (Globicephala melas) on the coast of Iceland“. Report of the International Whaling Commission, Special issue 14 (1993): 407-423.
  • Lúðvík Kristjánsson. Íslenskir sjávarhættir V. (Reykjavík: Menningarsjóður, 1986).
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Reykjavík: Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
  • Taylor, B.L., Baird, R., Barlow, J., Dawson, S.M., Ford, J., Mead, J.G., Notarbartolo di Sciara, G., Wade, P. & Pitman, R.L. (2008). Globicephala melas. 2008 IUCN Red List of Threatened Species. IUCN 2008 (Skoðað 26. febrúar 2009).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • „Hvað getið þið sagt mér um höfrunga?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað getið þið sagt mér um grindhvali?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað geta hvalir orðið gamlir?“. Vísindavefurinn.
  • „Lifa höfrungar við Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  • „hverning geta skíðishvalir étið fisk?“. Vísindavefurinn.
  • Hvalavefur RUV um grindhvali Geymt 12 apríl 2009 í Wayback Machine
  • Whale and Dolphin Conservation Society
  • ARKive Geymt 14 maí 2008 í Wayback Machine Ljósmyndir og vídeó af grindhval (texti á ensku)
  • Marsvínarekstur í Njarðvík fyrir 52 árum; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1927
  • Grindaveiðar í Færeyjum; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1933
  • Grindaveiðar í Færeyjum; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1933
  • Grindadráp í Atlantshafi; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1933