Grimsby
Grimsby (áður Great Grimsby, stundum nefndur Grímsbær á íslensku[1]) er hafnarbær við ósa árinnar Humber í Lincolnshire á Englandi. Áður fyrr hét borgin „Great Grimsby“ til aðgreiningar frá fiskiþorpinu Little Grimbsy, 14 km sunnar, nærri Louth. Á ensku nefnist fólk frá Grimbsy Grimbarians. Íbúafjöldi bæjarins er tæplega 90.000.
Saga
breytaGrimsby var stofnuð af Dönum á 9. öld. Heiti bæjarins varð til líklega úr orðinu Grim’s by eða „Grímsbær“. Talið er að danskur víkingur að nafni Grímur hafi stofnað bæinn og heitið sé samsett úr nafni hans og viðskeytinu -bær. Einnig er minnst á bæinn í Orkneyinga sögu:
- Vér hǫfum vaðnar leirur vikur fimm megingrimmar;
- saurs vara vant, er várum, viðr, í Grímsbœ miðjum.
- Nú'r þat's más of mýrar meginkátliga látum
- branda elg á bylgjur Bjǫrgynjar til dynja.
Grimsby er líka nefnd í Dómsdagsbókinni: þegar hún var skrásett voru 200 íbúar í bænum, prestur, mylla og ferja (líklega til að flytja fólk yfir Humber-ána).
Á 12. öld þróaðist Grimsby í hafnar- og verslunarbæ. Jóhann landlausi gaf bænum stofnskrá árið 1201 og fyrsti bæjarstjórinn tók við embætti árið 1218.
Efnahagsmál
breytaFiskveiðar og fiskvinnsla eru aðalatvinnuvegirnir í Grimsby. Hámarkinu var náð á sjötta áratug 20. aldar þegar Grimsby var mesti fiskveiðibær í heimi. Vegna útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar og þorskastríðanna við Ísland hafa fiskveiðar dregist saman á undanförum áratugum. Stærsti fiskmarkaður á Englandi er þó enn í dag í Grimsby en mikið af þeim fiski sem þar er seldur er fluttur inn frá öðrum höfnum eða í gámum frá Íslandi. Í dag eru mörg matvælavinnslufyrirtæki í Grimsby, um það bil 500 alls, og Grimsby er ein stærsta fiskvinnslumiðstöð í Evrópu.