[go: up one dir, main page]

64°08′39″N 21°47′32″V / 64.14417°N 21.79222°V / 64.14417; -21.79222

Útsýni yfir voginn og hverfið.
Grafarvogur: Rimar og Borgir.
Kort sem sýnir afmörkun Grafarvogshverfis.

Grafarvogur er hverfi í Reykjavík, sem markast af ósum Elliðaár í vestri, samnefndum vogi í suðri og Vesturlandsvegi í austri, sveitafélagsmörkum að Mosfellsbæ og sjó. Geldinganes er óbyggt nes norðvestan við Grafarvog og tilheyrir hverfinu. Hverfið er fjölbýlt og enn í uppbyggingu. Gullinbrú liggur yfir voginn og tengir hverfið við Bryggjuhverfi og Ártúnshöfða. Korpúlfsstaðir eru nyrst í hverfinu og þar austan við er Korputorg við Vesturlandsveg. Helsta verslunarmiðstöð hverfisins er í Spönginni. Póstnúmer í Grafarvogi er 112. Árið 2022 voru íbúar Grafarvogs 18.237.[1]

Til Grafarvogshverfis teljast Hamrar, Foldir, Hús, Rimar, Borgir, Víkur, Engi, Spöng, Staðir, Höfðar, Bryggjuhverfi, Geirsnef, Gufunes og Geldinganes. Hverfið byggðist fyrst upp eftir miðjan 9. áratug 20. aldar. Í hverfinu eru sex grunnskólar: Foldaskóli, Hamraskóli, Húsaskóli, Kelduskóli, Vættaskóli og Rimaskóli; og einn framhaldsskóli: Borgarholtsskóli. Gufuneskirkjugarður og Korpúlfsstaðavöllur Golfklúbbs Reykjavíkur eru í Grafarvogi. Í hverfinu er ein kirkja, Grafarvogskirkja.

Ungmennafélagið Fjölnir er með mikla starfsemi í hverfinu við Dalhús og Egilshöll. Grafarvogslaug er sundlaug sem stendur við knattspyrnuvöll Fjölnis við Dalhús. Egilshöll er eitt stærsta íþróttahús landsins. Þar er Skotfélag Reykjavíkur með innanhússæfingar, keiluhöll, skautahöll, kvikmyndahús Sambíóanna, sportbar, pitsustaður, stór innanhússknattspyrnuvöllur, auk aðstöðu fyrir handknattleik, körfuknattleik, fimleika og rafíþróttir. Kayakklúbbur Reykjavíkur er með aðstöðu við Geldinganes. Gufunesvöllur er eini 18-holu frisbígolfvöllur landsins. Á Gufunesi standa enn byggingar Áburðarverksmiðju ríkisins sem hefur verið breytt í kvikmyndaver á vegum True North og RVK Studios. Til stendur að reisa íbúðabyggð í Gufunesi og í Keldnalandi norðan við Grafarvogslæk.

Grafarvogur dregur nafn sitt af bænum Gröf, sem nú er í eyði en stóð innst við hann, við Grafarlæk fyrir sunnan Keldur.

Tilvísanir

breyta
  1. „Mannfjöldi eftir hverfum í Reykjavík, kyni og aldri 1. janúar 2011-2023“. Hagstofa Íslands.
   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.