[go: up one dir, main page]

Friðrik 2. Danakonungur

(Endurbeint frá Friðrik II Danakonungur)

Friðrik 2. (1. júlí 1534 - 4. apríl 1588) var konungur Danmerkur frá 1559 til dauðadags.

Friðrik var sonur Kristjáns 3. og Dórótheu af Saxlandi-Láinborg. Hann var útnefndur ríkisarfi árið 1536, eftir að faðir hans vann sigur í Greifastríðinu og var tekinn til konungs í allri Danmörku. Hann tók við ríkjum eftir að faðir hans lést á nýársdag 1559. Sama ár náði hann undir sig Þéttmerski (Dithmarschen) í Norður-Þýskalandi með stuðningi föðurbróður síns, Adólfs hertoga af Gottorp. Áhugi hans á að ná Svíþjóð aftur undir danskt vald leiddi hann út í Sjö ára stríðið við Svía 1563 - 1570. Hann sýndi í fyrstu myndugleik en ærinn stríðskostnaður leiddi til þess að hann varð að fá fornan óvin föður sín, Peder Oxe (1520 - 1575), til að rétta af fjárhag ríkisins. Oxe þrefaldaði meðal annars Eyrarsundstollinn, en fyrir tekjurnar af honum lét konungur reisa Krónborgarhöll og Friðriksborgarhöll.

Friðrik 2. veitti töluverðu fé til stjörnufræðingsins Tycho Brahe til að hann gæti unnið að fræðum sínum á eyjunni Hveðn, en þar lét Brahe reisa höllina og stjörnuskoðunarstöðina Úraníuborg og síðar stjörnuskoðunarstöðina Stjörnuborg þar sem hann og lærisveinar hans stunduðu ýmsar athuganir á gangi himintunglanna. Eftir lát Friðriks konungs dró mjög úr stuðningi krúnunnar og Brahe lenti upp á kant við Kristján 4. og flutti á endanum til Prag og dó þar.

Friðrik 2. þjáðist lengi vel af malaríu og á síðustu æviárum sínum jukust þjáningar hans mjög. Í líkræðu sinni yfir Friðriki dró presturinn og sagnfræðingurinn Anders Sørensen Vedel ekki dul á að Friðrik hefði flýtt dauða sínum með drykkjuskap.

Ungur varð Friðrik ástfanginn af hefðarmeyjunni Önnu Hardenberg, en hún var lofuð öðrum og þótti heldur ekki konunginum samboðin, svo að ekkert varð af giftingu þeirra. Hann giftist ekki fyrr hann var orðinn 38 ára, 20. júlí 1572, og var brúðurin 15 ára gömul frænka hans, Soffía af Mecklenburg (1557 - 1631). Þau eignuðust saman sjö börn, þar á meðal Kristján 4. Danakonung og Önnu, sem giftist Jakob 6. Skotakonungi, sem síðar varð Jakob 1. konungur Bretlands.

Friðrik veitti Guðbrandi Þorlákssyni biskupi leyfi til þess að prenta Guðbrandsbiblíuna árið 1579.


Fyrirrennari:
Kristján 3.
Konungur Danmerkur
(1559 – 1588)
Eftirmaður:
Kristján 4.