[go: up one dir, main page]

Andarnefja (fræðiheiti Hyperoodon ampullatus) er allstór tannhvalur, álíka stór og hrefna en mjög ólík henni. Hún er með mjótt trýni og hátt og kúpt enni. Trýnið minnir á andarnef og af því fær hún nafn sitt. Höfuðið er nokkuð aðgreint frá bolnum. Augun eru rétt aftan við munnvikin.

Andarnefja
Samanburður á stærð andarnefju og manns
Samanburður á stærð andarnefju og manns
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Tannhvalir (Odontoceti)
Ætt: Svínhveli (Ziphidae)
Ættkvísl: Nefjur (Hyperoodon)
Lacépède, 1804
Tegund:
H. planifrons
H. ampullatus

Tvínefni
Hyperoodon ampullatus
(Forster, 1770)
Útbreiðslusvæði andarnefju í norðurhöfum
Útbreiðslusvæði andarnefju í norðurhöfum

Tarfarnir eru um átta til níu metrar á lengd og um 3600 kg að þyngd. Kýrnar eru um sjö metrar á lengd og vega um þrjú tonn. Karldýrið er með tvær tennur í neðri skolti en kvendýrið er tannlaust. Tennurnar tvær eru inni í tannholdinu þangað til hvalirnir eru orðnir rúmlega 15 ára gamlir, en þá fyrst koma þær upp úr tannholdinu. Andarnefjan er grásvört á litinn en ljósari að neðan en á bakinu. Þegar dýrin eldast verða sum þeirra ljós á litinn og höfuðið nærri hvítt. Bægslin eru smá og rétt fyrir aftan höfuðið. Bakugginn er aftarlega og um 30 sm hár. Engin sýling er í sporðinum og lyfta andarnefjur sporðinum sjaldan upp úr sjónum, en stundum stökkva þær. Blásturinn er lítill og sést heldur illa. Andarnefjan verður kynþroska 9-12 ára. Fengitími er á vorin eða snemmsumars og er meðgöngutími kúnna um 12 mánuðir.

Andarnefjur lifa aðallega á smokkfiski en éta einnig fisk, sæbjúgu og krossfiska. Þær halda sig oftast fjarri landi. Andarnefjur eru félagslyndar og er algengt að sjá þær í litlum hópum, 4–10 dýr saman. Þær eru mjög forvitnar og koma oft nærri skipum. Ef skip gefa frá sér hvell hljóð kafa þær undir skipin til að kanna hvaðan hávaðinn kemur. Þær eru oft margar mínútur á yfirborði til að anda en kafa þess á milli niður á mikið dýpi. Aðeins búrhvalir geta kafað dýpra en þær. Andarnefjur halda sig oftast langt úti á reginhafi þar sem dýpið er að minnsta kosti 1000 metrar. Þær sjást við Ísland á sumrin og þá aðallega fyrir vestan og norðan land milli Íslands og Jan Mayen. Á veturna eru þær aðallega vestur og suðvestur af Spáni.

Hvalveiðimenn, einkum norskir og breskir, veiddu mikið af andarnefju í Norður-Atlantshafi allt fram á sjötta áratug þessarar aldar en hún var lítið veidd á suðurhveli. Um 60.000 andarnefjur voru veiddar frá 1882 fram að 1930 á Norður-Atlantshafi og 5800 frá 1930 til 1973 [1] en tegundin var friðuð árið 1972. Andarnefjan var aðallega veidd vegna olíunnar í höfði hennar. Olían var notuð sem hægðalyf, áburður og í smyrsl en kjötið í dýrafóður.

Við hvalatalningu árið 2015 var talið að um tæplega 20.000 dýr lifðu í Norður-Atlantshafi.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. NAMMCO Annual Report 1997, The North Atlantic Marine Mammal Commission
  2. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).

Heimildir

breyta
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr (2002). Hvalaskoðun við Ísland. Reykjavík: JPV Útgáfan.
  • Stefán Aðalsteinsson (1987). Villtu spendýrin okkar. Reykjavík: Bjallan.
  • Upplýsingaskilti um andarnefjur á Pollinum á Akureyri
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg (1997). Íslenskir hvalir fyrr og nú. Forlagið.

Íslenskir tenglar

breyta
  • „Hvað getið þið sagt okkur um andarnefjur?“. Vísindavefurinn.
  • Andarnefja er algeng hér við land; grein í Morgunblaðinu 1998[óvirkur tengill]
  • Húsvíkingar í bardaga við hvali; frétt í Morgunblaðinu 1939[óvirkur tengill]
  • Fólk sýni aðgát nálægt andarnefjum, 15.09.2008, frétt frá Akureyri

Erlendir tenglar

breyta