[go: up one dir, main page]

Alexandrowka er heiti á gömlu rússnesku hverfi í þýsku borginni Potsdam. Það var reist fyrir rússneska kórmeðlimi á tímum Napoleonsstríðanna.

Dæmigert hús í hverfinu Alexandrowka

Saga Alexandrowka

breyta
 

Árið 1812 sneri Napoleon úr mislukkuðum leiðangri sínum frá Rússlandi. 62 rússneskir fangar sem hann hafði meðferðis skildi hann eftir í varðhaldi í Potsdam. Þeir mynduðu kór sem söng meðal annars fyrir Prússakonung. Þegar Napoleon féll urðu þeir eftir í Potsdam, enda mikið eftirlæti Prússakonungs. 1825 voru aðeins 12 þeirra eftir, en þá lést Alexander I Rússakeisari. Friðrik Vilhjálmur III konungur Prússlands lét þá reisa heilt hverfi fyrir þá í norðurhluta Potsdam og gaf þeim hús og híbýli, allt saman vel innréttað. Hverfið var nefnd Alexandrowka til heiðurs nýlátnum Rússakeisara (Alexanderplatz í Berlín er einnig nefnt eftir honum). Rússarnir máttu þó ekki selja eða leigja húsin. Þeir urðu að búa þar sjálfir og afkomendur þeirra eftir þá. Í hverfinu var einnig reist rússnesk kirkja, Alexander-Newski-minningarkirkjan, en hún var vígð 1829. Með árunum fækkaði Rússunum. 1861 lést síðasti kórmeðlimurinn. 1927 bjuggu aðeins fjórar rússneskar fjölskyldur í hverfinu og í dag er aðeins 1 rússnesk fjölskylda eftir.

Húsin

breyta

Hverfið samanstendur af tólf íbúðarhúsum, eitt fyrir hvern kórmeðlim. Þau eru öll ein- eða tvílyfta. Þrettánda húsið var fyrir rússneskan þjón. Öll húsin voru gerð úr timbri í sannkölluðum ‘piparkökustíl.’ Húsin voru útbúin svölum. Árið 2005 var hús nr. 2 breytt í safnið Alexandrowka, þar sem gestir fá nasasjón af því hvernig Rússarnir bjuggu. Hverfið í heild sinni er á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimildir

breyta