[go: up one dir, main page]

Þorlákur Loftsson

Þorlákur Loftsson helgi (d. 1354) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri frá 1314 til dauðadags, eða í 40 ár.

Þorlákur var sonur Lofts Helgasonar, ráðsmanns í Skálholti, bónda í Skál og síðast kanúka í Þykkvabæjarklaustri og konu hans Borghildar, dóttur Eyjólfs ofsa Þorsteinssonar og Þuríðar Sturludóttur Sighvatssonar. Bróðir Lofts var Árni Helgason biskup.

Þorlákur hafði forstöðu klaustursins á seinustu árum Loðmundar ábóta og tók formlega við eftir lát hans, sem var um jólin 1313. Hann átti í erjum við munkana í klaustrinu, sem voru honum mjög óhlýðnir. Tveir eða þrír þeirra börðu ábóta og hröktu hann á flótta úr klaustrinu 1342 og er sagt að Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup hafi komið ári síðar og látið setja þá í járn. Einn þeirra var Eysteinn Ásgrímsson, höfundur Lilju.

Hvaða álit sem munkarnir í klaustrinu höfðu á ábótanum, þá virðist hann hafa notið virðingar og hylli almennings og það svo mjög að hann var talinn helgur maður og bein hans voru tekin upp 1360, sex árum eftir lát hans, og höfð í klausturkirkjunni í Þykkvabæ. Eftirmaður hans var Eyjólfur Pálsson.

Heimildir

breyta
  • „„Þykkvabæjarklaustur". Sunnudagsblaðið, 15. maí 1966“.
  • „„Þykkvabæjarklaustur (Klaustur í Veri)". Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.