[go: up one dir, main page]

Árni Steinar Jóhannsson

Árni Steinar Jóhannsson (12. júní 1953 - 1. nóvember 2015) var íslenskur garðyrkjufræðingur og stjórnmálamaður sem átti sæti á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð.

Hann fæddist og ólst upp á Dalvík og nam garðyrkjufræði við Garðyrkjuskóla ríkisins og í Danmörku. Hann varð garðyrkjustjóri á Akureyri árið 1979 og síðar umhverfisstjóri sveitarfélagsins allt til ársins 1999.

Árni Steinar var oddviti Þjóðarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra í Alþingiskosningunum 1991. Árangur flokksins í kjördæminu var sá langbesti á landinu, rúmlega 1.000 atkvæði og mátti litlu muna að flokkurinn hlyti þar sinn fyrsta og eina þingmann. Fjórum árum síðar gekk Árni Steinar til liðs við Alþýðubandalagið og óháða og náði kjöri sem varaþingmaður. Hann varð síðar þingmaður fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð kjörtímabilið 1999-2003, þar sem hann átti sæti í iðnaðarnefnd.

Fyrir kosningarnar 2003 var kjördæmakerfinu breytt, þar sem Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi voru sameinuð. Þegar ljóst varð að Árni Steinar kæmist ekki ofar á lista en í þriðja sæti, sem talið var nær útilokað til að ná inn á þing, færði hann sig yfir í hið nýstofnaða Norðvesturkjördæmi og tók annað sæti á eftir Jóni Bjarnasyni. Hann náði ekki kjöri en tók þó tvívegis sæti sem varaþingmaður á kjörtímabilinu.

Eftir að stjórnmálaferlinum lauk sneri Árni Steinar sér aftur að fyrri verkefnum og gerðist umhverfisstjóri í Fjarðabyggð. Hann lést 62 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein.[1][2]

Tilvísanir

breyta
  1. „Æviágrip á vef Alþingis“.
  2. „Minningarorð á vef Alþingis“.