[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Svalur og Valur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Veggmynd af Sval, Val og Pésa í Janson-neðanjarðarlestarstöðinni í Charleroi.

Svalur og Valur (franska: Spirou et Fantasio) er heiti á vinsælum belgískum teiknimyndasögum sem segja frá ævintýrum vinanna og blaðamannanna Svals og Vals. Ýmsir höfundar hafa spreytt sig á sagnaflokknum, en André Franquin er almennt talinn hafa haft mest áhrif á þróun hans. Á árunum 1977 til 1992 komu fjölmargar Svals og Vals-bækur út á íslensku á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar. Íslensk útgáfa Svals og Vals hófst á ný árið 2013 á vegum Frosks útgáfu.

Upphafið má rekja til ársins 1938, þegar Dupuis-forlagið hóf útgáfu teiknimyndablaðsins Svals (Spirou). Í því birtust sögur ýmissa höfunda, en titlpersónan var Svalur sem var hugarsmíð franska teiknarans Robert Velter eða Rob-Vel, eins og hann kallaði sig. Svalur var táningspiltur sem starfaði sem lyftuvörður á hóteli og komst oft í hann krappann ásamt gæluíkornanum sínum, Pésa.

Árið 1943 keypti Dupuis-forlagið höfundaréttinn að persónunni af Rob-Vel, sem þá hafði raunar ekki getað sinnt sögunum um hríð vegna þátttöku sinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Belginn Joseph Gillain eða Jijé tók við pennanum. Hann kynnti til sögunnar spjátrunginn Val. Saman lentu þeir félagarnir í ýmsum ævintýrum. Sögurnar voru þó stuttar og gengu fyrst og fremst út á ærslakenndan húmor.

Gullöld Svals og Vals

[breyta | breyta frumkóða]
Frakkinn Fournier var aðalteiknari og höfundur bókaflokksins á áttunda áratugnum.

Árið 1946 var ungum Belga, André Franquin, falin umsjón með ævintýrum Svals og Vals. Í hans meðförum urðu miklar breytingar á sögunum. Söguþráðurinn varð flóknari, ævintýrin lengdust til muna og var farið að gefa þau út á bókarformi eftir að þau höfðu birst sem framhaldssögur í Svals-blaðinu. Árið 1948 kom fyrsta slíka bókin á markað og hafði hún að geyma fjórar sögur. Önnur fylgdi í kjölfarið árið 1950, Quatre aventures de Spirou et Fantasio og er hefð fyrir að telja hana fyrstu Svals og Vals-bókina. Síðar hafa komið út söfn með eldri sögum eftir Rob-Vel, Jijé og Franquin, teljast þau ekki hluti af hinum eiginlega bókaflokki frekar en bókin frá 1948.

Viggó viðutan var í fyrstu aukapersóna í Sval og Val.

Franquin kynnti einnig til sögunnar ýmsar aukapersónur sem áttu eftir að hafa mikil áhrif. Má þar nefna Sveppagreifann og kynjaskepnuna gormdýrið. Þá hóf Viggó viðutan göngu sína sem aukapersóna í Sval og Val áður en hann öðlaðist sjálfstæða tilveru í eigin sögum. Meðan sagnaflokkurinn var í umsjón Franquins, naut hann aðstoðar ýmissa manna sem ýmist komu að því að semja sögurnar, teikna bakgrunnsmyndir eða lita þær. Má þar nefna listamenn á borð við Greg, Peyo og Jean Roba.

Frakkinn Jean-Claude Fournier tók við Sval og Val árið 1969. Franquin vildi þó ekki sleppa hendinni af gormdýrinu og heimilaði ekki notkun þess í fleiri Svals og Vals-bókum. Fournier sveigði söguþráðinn meira í átt að hefðbundnum spennusögum, þar sem félagarnir áttu oft í höggi við alþjóðlegu glæpasamtökin Þríhyrninginn, sem svipar mjög til SPECTRE-samtakanna úr kvikmyndunum um James Bond. Af minnisstæðum aukapersónum Fourniers má nefna japanska töframanninn Ító Kata.

Örar mannabreytingar

[breyta | breyta frumkóða]
Belgíski teiknarinn Janry áritar verk sín á bókamessu í Gautaborg 2008.

Árið 1979 hætti Fournier skyndilega störfum hjá Dupuis. Í kjölfarið voru tvö teymi teiknara og höfunda fengin til að spreyta sig á sögunum og birtust þær á víxl í Svals-blaðinu. Annars vegar voru það teiknarinn Nic og höfundurinn Cauvin, sem er kunnastur fyrir sögur sínar um harðjaxlana Samma og Kobba og hins vegar þeir Tome og Janry. Hinir fyrrnefndu þóttu ekki ná sér vel á strik og eru bækurnar þeirra þrjár ekki í hávegum hafðar hjá hörðum aðdáendum. Sömu sögu var að segja um franska listamanninn Yves Chaland sem gerði metnaðarfulla en skammlífa tilraun til að semja Svals og Vals-ævintýri á árinu 1982.

Tome og Janry nutu hins vegar mikilla vinsælda frá upphafi og sendu frá sér fjórtán bækur í allt, ein þeirra, Furðulegar uppljóstranir, segir frá æskuárum Svals og markaði hún í raun upphafið að sjálfstæðum bókaflokki þeirra félaga um strákpjakkinn Sval. Síðasta bók þeirra, Machine qui rêve frá 1998, markaði tímamót í bókaflokknum. Útliti persónanna var gjörbreytt og þær gerðar raunsæislegri. Stokkið var fram og aftur í tíma í frásögninni og minnir sagan fremur á hefðbundnar nútímateiknimyndasögur en hinar gömlu Svals og Vals-bækur.

Svalur og Valur á 21. öld

[breyta | breyta frumkóða]
Spánverjinn Munuera dró Sval inn í heim manga-hefðarinnar.

Þessi tilraun til nútímavæðingar bókaflokksins hélt áram hjá næstu höfundum, Morvan og Munuera. Þeir sendu frá sér fjórar bækur sem sóttu mjög í smiðju japanskrar Manga-hefðar í teiknimyndasagnagerð. Annað einkenni á verkum þeirra er hversu mikið er um vísanir í fyrri bækur ritraðarinnar og gamlar aukapersónur óspart kynntar til sögunnar.

Þessar sögulegu vísanir eru ekki síður fyrirferðarmiklar í bókinni Alerte aux Zorkons eftir þá Yoann og Wehlmann, sem tóku við keflinu árið 2010. Sú bók taldist sú 51. í ritröðinni en alls rituðu þeir félagarnir fimm sögur, þá síðustu árið 2016 og smásagnasafn sem út kom ári síðar. Sögur þessar eru hver um sig sjálfstætt ævintýri en gerast þó í ákveðinni tímaröð, þar sem ýjað er að atburðum næstu bókar í lok hverrar sögu. Þessi skýra samfella er óvenjuleg í Svals og Vals-sagnaflokkinum, þótt Fournier hafi átt það til að tengja sögur með þessum hætti.

Áður höfðu Yoann og Wehlmann átt sögur í nýjum bókaflokki Dupuis: Sérstakt ævintýri um Sval..., þar sem einstakir listamenn eru fengnir til að gera Sval og Val skil á sinn hátt. Í þeim sögum hafa höfundarnir mun frjálsari hendur, enda teljast sögurnar ekki til hins formlega sagnaflokks og atburðir þar hafa því ekki áhrif á heildarmyndina. Þá geta höfundar stokkið fram og aftur í tíma, til dæmis með því að láta ævintýri sín gerast á árum seinni heimstyrjaldarinnar. Hátt á annan tug bóka hafa komið út í þessari ritröð nú þegar og fleiri eru boðaðar.

Athygli vakti þegar 56. bókin, Hefnd Gormsins, kom út að Gormdýrið sneri aftur en fyrri höfundum bókaflokksins hafði vegna réttindamála ekki verið heimilað að nýta sér þá persónu. Skýrt var þó tekið fram að hér yrði um einstakt tilvik að ræða. Í lok bókarinnar var næsta saga boðuð og upplýst að þar kæmu við sögu nasistar í Hollywood. Sú bók leit þó aldrei dagsins ljós. Dalandi sölutölur urðu til þess að útgefandinn ákvað að setja sagnaflokkinn á ís. Þess í stað sneru Yoann og Wehlmann sér að nýrri ritröð um Ofur-Sval, þar sem Svalur hefur öðlast ofurhetjukrafta. Sögur þessar leika sér með ýmis minni úr bandarískum ofurhetjusögum og skopskæla þau.

Engin eiginleg Svals og Vals-bók kom út frá 2016 til 2022 og er það eitt lengsta bil í útgáfusögu bókaflokksins. Á árinu 2021 var þó tilkynnt að nýtt höfundateymi hefði tekið við pennastönginni. Það eru teiknarinn Olivier Schwartz og handritshöfundarnir Benjamin Abitan og Sophie Guerrive. Valið vakti athygli þar sem Abitan er kunnur útvarpsgrínisti en algjörlega reynslulaus við gerð myndasagna. Sophie Guerrive verður fyrsta konan sem skráð verður höfundur opinberrar Svals og Vals-bókar. Frumraun þeirra kemur út á árinu 2022 og mun kallast Dauði Svals, (franska: La mort de Spirou).

Aðalsöguhetjur

[breyta | breyta frumkóða]
Svalur er áberandi á götum Brussel.

Svalur (franska: Spirou) var kynntur til sögunnar á forsíðu fyrsta heftis teiknimyndablaðsins Svals árið 1938. Hann var hugarsmíð teiknarans Rob-Vel, sem kaus að gera persónuna að lyftudreng á hóteli. Sjálfur hafði Rob-Vel haft þann starfa með höndum á táningsaldri. Þótt lyftuvarðarferill Svals yrði ekki langur og hann gerðist fljótlega blaðamaður, hélt hann tryggð við rauða lyftuvarðargallann og kaskeytið. Í seinni tíð hafa teiknarar bókaflokksins reynt að færa Sval í annars konar klæðnað eða gera hann minna áberandi, t.d. með því að sleppa kaskeytinu eða láta búninginn minna á rauðan íþróttagalla.

Í samskiptum þeirra Svals og Vals er Svalur yfirleitt rödd skynseminnar. Meðan Valur er mikið upp á kvenhöndina, hefur Svalur lítið haft sig í frammi í samskiptum við hitt kynið. Á því hefur þó orðið nokkur breyting í seinni tíð eða allt frá bókunum Luna fatale og Machine qui rêve, tveimur síðustu bókunum eftir Tome og Janry. Í bókinni Aux sources du Z gengur Svalur meira að segja í hjónaband og snýr baki við æsilegum ævintýrum.

Bókaflokkurinn Litli-Svalur eftir Tome og Janry segir frá ævintýrum Svals og vina hans á barnsaldri, með talsverðri áherslu á hvolpavitið.

Valur er glaumgosinn í sögunum.

Valur (franska: Fantasio) er besti vinur Svals og félagi frá því að teiknarinn Jijé kynnti hann til sögunnar árið 1944. Í fyrstu var Valur nálega tvöfalt hærri en Svalur en sá hæðarmunur minnkaði jafnt og þétt með tímanum. Valur var upphaflega hvatvís draumóramaður sem hugsaði fyrst og fremst um að skemmta sér eða lét sig dreyma um að auðgast hratt. Þá hefur hann alla tíð haft tæknidellu.

Þótt persóna Vals hafi með tímanum orðið skynsamari og yfirvegaðri, er hann ennþá hrifnæmari þeirra félaga og fljótur að skipta skapi. Í teiknimyndunum um Viggó viðutan kemur Valur fyrir sem aukapersóna, en þar er hann fyrst og fremst ábyrgur skrifstofumaður sem verður ítrekað fyrir barðinu á uppátækjum Viggós.

Frá sögunni Hrakfallaferð til Feluborgar hafa Svalur og Valur yfirleitt búið saman í húsi. Hafa höfundar sagnaflokksins ekki gefið neina skýringu á því lífstílsvali.

Pési (franska: Spip) er gæluíkorni Svals, með mannlega hugsun og eiginleika. Hann birtist fyrst í sögu sem Rob-Vel og Jijé unnu í sameiningu. Pési fylgir félögunum eftir, en mismunandi er eftir höfundum hversu beinan þátt hann tekur í framvindu atburðarásarinnar, þannig dró nokkuð úr vægi hans með tilkomu gormdýrsins hjá Franquin. Í mörgum bókanna, einkum í tíð Fourniers og í fyrri bókum Tome og Janry, tjáir Pési sig óspart með hugsanablöðrum og þá yfirleitt á kaldhæðinn hátt, auk þess að ávarpa stundum lesandann beint. Í nýrri sögunum hefur þáttur Pésa heldur farið minnkandi á nýjan leik.

Sveppagreifinn

[breyta | breyta frumkóða]
Sveppagreifinn. Myndskreyting frá lestarstöð í Charleroi.

Sveppagreifinn (franska: Le Comte de Champignac) er sérvitur aðalsmaður og vísindamaður sem Svalur og Valur komast í kynni við strax í annarri bókinni, Il y a un sorcier à Champignac. Greifinn býr á setri sínu fyrir utan Sveppaborg og valda ýmsar af tilraunum hans uppnámi í borginni. Þótt greifinn sé alhliða vísindamaður er sérgrein hans þó sveppir og notkun þeirra. Þáttur Sveppagreifans fór minnkandi eftir að Franquin sagði skilið við ritun Svals og Vals-bókanna.

Gormdýrið

[breyta | breyta frumkóða]
Gormur á húsvegg í Düsseldorf.

Gormdýrið (franska: Marsupilami) eða Gormur er skringileg frumskógarskepna með ofurkrafta sem Valur finnur og tekur að sér í Baráttunni um arfinn, fjórðu Svals og Vals-bók Franquins. Í næstu bókum komu í sífellu fram nýir hæfileikar dýrsins, s.s. hæfileiki þess til að synda á miklu dýpi og endurtaka setningar á mannamáli. Franquin hafði miklar mætur á Gormdýrinu og heimilaði eftirmönnum sínum ekki að nota það í fleiri Svals og Vals-ævintýrum, ef frá er talin fyrsta Fournier-bókin, Gullgerðarmaðurinn, þar sem Franquin sá sjálfur um að teikna Gorm. Síðar hóf Franquin ritun sjálfstæðra bóka um gormdýrsfjölskyldu í frumskógum Rómönsku Ameríku. Svals og Vals-bókin Gormahreiðrið fjallaði nær einvörðungu um atferli þessarar skepnu.

Andstæðingar og aukapersónur

[breyta | breyta frumkóða]

Zorglúbb (franska: Zorglub) kemur fyrir í fjölda Svals og Vals-bóka og er einhver flóknasta persóna bókaflokksins. Í bókunum Z fyrir Zorglúbb og Með kveðju frá Z er Zorglúbb kynntur til sögunnar sem hrokafullur vísindamaður með mikilmennskubrjálæði. Hann er gamall skólafélagi Sveppagreifans og virðast áform hans um heimsyfirráð öðrum þræði tengjast minnimáttarkennd hans í garð síns gamla félaga.

Í seinni ævintýrum er Zorglúbb fremur í hlutverki aðstoðarmanns Sveppagreifans, þótt stórmennskudraumarnir láti alltaf öðru hvoru á sér kræla. Í Aux sources du Z er upplýst að Sveppagreifinn og Zorglúbb hafi á háskólaárum sínum barist um ástir sömu konunnar, sem kunni að skýra margt í samskiptum þeirra.

Hvergi í sagnaflokknum kemur fram hvort Zorglúbb sé fornafn eða eftirnafn persónunnar.

Sammi frændi

[breyta | breyta frumkóða]

Sammi (franska: Zantafio) er siðblindur frændi Vals, sem komið hefur við sögu í átta Svals og Vals-bókum, einatt í hlutverki illmennis. Hann er kynntur til sögunnar í Baráttunni um arfinn og beitir þar ýmsum bellibrögðum í keppni við Val. Síðar gerist hann m.a. einræðisherra í Mið-Ameríkulandi, leiðtogi alþjóðaglæpasamtakanna Þríhyrningsins og reynir að ræna völdum í Rússlandi.

Don Vito Cortizone

[breyta | breyta frumkóða]

Don Vito Cortizone, einnig kallaður Lucky, er fádæma óheppinn og hjátrúarfullur leiðtogi ítölsku mafíunnar í New York. Hann er kynntur til sögunnar í bókinni Svalur í New York, þar sem hann þvingar Sval og Val til að aðstoða sig í baráttu við kínversku mafíuna í borginni. Hann kemur við sögu í þremur öðrum bóka Tome og Janry: Seinheppnum syndasel, Le rayon noir og Luna fatale.

Borgarstjóri Sveppaborgar

[breyta | breyta frumkóða]

Borgarstjórinn í Sveppaborg var kynntur til sögunnar í Il y a un sorcier à Champignac og er því einhver lífseigasta persóna bókaflokksins. Hann er dramblátur stjórnmálamaður með harðkúluhatt, sem kennir Sveppagreifanum um flest sem aflaga fer í bæ sínum og það ekki alltaf að ósekju. Borgarstjórinn notar hvert tækifæri til að flytja ávörp, sem oftar en ekki eru löng og ruglingsleg. Í allnokkrum bókanna afhjúpar hann styttu af sjálfum sér, sem endar þó einatt á að styttan eyðileggst með einhverjum hætti.

Í Vélmenni í veiðihug á frummálinu, er upplýst að rétt nafn borgarstjórans sé Gustave Labarbe, en það heiti kemur þó ekki fyrir í íslenskri þýðingu bókarinnar.

Bitla (franska: Seccotine) er ein af örfáum kvenpersónum í hinni karllægu veröld Svals og Vals. Hún er tápmikill blaðamaður sem kemur þeim félögum oft til hjálpar í ævintýrum sínum. Þau Valur starfa á sama blaði og bítast því um fréttir og vinsældir ritstjórans. Val er því meinilla við Bitlu, en Svalur kann betur að meta hana. Milli þeirra hefur meira að segja myndast nokkur kynferðisleg spenna í seinni tíð, s.s. í Machine qui rêve og Aux sources du Z.

Bitla er sögumaður í Gormahreiðrinu og upplýsir þar um lifnaðarhætti gormdýrsins í sínu náttúrulega umhverfi.

Í Machine qui rêve er upplýst að Bitla sé gælunafn eða uppnefni persónunnar, sem heiti í raun Sophie.

Órórea (franska: Ororéa) er blaðakona frá Pólýnesíu og vinkona Svals og Vals. Fournier kærði sig ekki um að nota persónuna Bitlu í bókum sínum og skóp í staðinn hina gullfallegu Óróreu sem flestir karlar eru bálskotnir í, þar á meðal Valur. Órórea kemur fyrir í fjórum af bókum Fourniers, en ekki hjá öðrum höfundum.

Ító Kata (franska: Itoh Kata) er japanskur vinur þeirra Svals og Vals. Hann er snjall sjónhverfinga- og töframaður og koma þeir hæfileikar oft að góðum notum í baráttu við glæpamenn. Fournier skapaði persónu Ító Kata og notaði í fjórum bóka sinna: Sprengisveppnum, Dularfulla klaustrinu, Tora Torapa og Móra. Morvan og Munuera endurvöktu töframanninn eftir langt hlé í bók sinni Spirou et Fantasio à Tokyo.

Svals og Vals-bækurnar eru 53 að tölu, en auk þeirra hafa komið út nokkrar safnbækur með minni sögum. Listinn sýnir nöfn og útgáfuár bókanna á frönsku og íslensk heiti, númer og útgáfuár þar sem við á:

  1. Quatre aventures de Spirou et Fantasio (1950) [ísl. útg. 2014 og 2015, Svalur í hringnum og Svörtu hattarnir]
  2. Sveppagaldrar í Sveppaborg (Il y a un sorcier à Champignac, 1951) [ísl. útg. 2017]
  3. Í klandri hjá kúrekum (Les chapeaux noirs, 1952) [ísl. útg. 1986, bók 22, sjá einnig: Svörtu hattarnir]
  4. Baráttan um arfinn (Spirou et les héritiers 1952) [ísl. útg. 1980, bók 9]
  5. Les voleurs du Marsupilami (1954)
  6. La corne de rhinocéros (1955)
  7. Burt með harðstjórann! (Le dictateur et le champignon 1956) [ísl. útg. 1980, bók 10]
  8. La mauvaise tête (1957)
  9. Svamlað í söltum sjó (Le repaire de la murène 1957) [ísl. útg. 1983, bók 17]
  10. Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence 1958) [ísl. útg. 1978, bók 1]
  11. Svalur og górilluaparnir (Le gorille a bonne mine 1959) [ísl. útg. 1978, bók 4]
  12. Gormahreiðrið (Le nid des Marsupilamis 1960) [ísl. útg. 1978, bók 2]
  13. Le voyageur du Mésozoïque (1960)
  14. Fanginn í styttunni (Le prisonnier du Bouddha 1960) [ísl. útg. 1981, bók 12]
  15. Z fyrir Zorglúbb (Z comme Zorglub 1961) [ísl. útg. 1981, bók 13]
  16. Með kveðju frá Z (L'ombre du Z 1962) [ísl. útg. 1982, bók 16]
  17. Sjávarborgin (Spirou et les hommes-bulles 1964) [ísl. útg. 1983, bók 18]
  18. Neyðarkall frá Bretzelborg (QRN sur Bretzelburg 1966) [ísl. útg. 1982, bók 11]
  19. Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac 1968) [ísl. útg. 1979, bók 5]
  20. Gullgerðarmaðurinn (Le faiseur d'or 1970) [ísl. útg. 1979, bók 6]
  21. Sprengisveppurinn (Du glucose pour Noémie 1971) [ísl. útg. 1980, bók 7]
  22. Dularfulla klaustrið (L'abbaye truquée 1972) [ísl. útg. 1980, bók 8]
  23. Tora Torapa (1973)
  24. Tembó Tabú (Tembo Tabou 1974) [ísl. útg. 1978, bók 3]
  25. Töfrafestin frá Senegal (Le gri-gri du Niokolo-Koba 1974) [ísl. útg. 1982, bók 14]
  26. Du cidre pour les étoiles (1977)
  27. Móri (L'Ankou, 1978) [ísl. útg. 1982, bók 15]
  28. Kodo le tyran (1979)
  29. Des haricots partout (1980)
  30. La ceinture du grand froid (1983)
  31. La boîte noire (1983)
  32. Les faiseurs de silence (1984)
  33. Veiran (Virus 1984) [ísl. útg. 1984, bók 19]
  34. Aventure en Australie (1985)
  35. Vélmenni í veiðihug (Qui arrêtera Cyanure? 1985) [ísl. útg. 1985, bók 20]
  36. Tímavillti prófessorinn (L'horloger de la comète 1986) [ísl. útg. 1986, bók 21]
  37. Upprisa Z (Le réveil du Z 1986) [ísl. útg. 1987, bók 23]
  38. Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou 1987) [ísl. útg. 1987, bók 24]
  39. Svalur í New York (Spirou à New-York 1987) [ísl. útg. 1988, bók 25]
  40. Með hjartað í buxunum (La frousse aux trousses 1988) [ísl. útg. 1989, bók 26]
  41. Dalur útlaganna (La vallée des bannis 1989) [ísl. útg. 1990, bók 27]
  42. Svalur í Moskvu (Spirou à Moscou 1990) [ísl. útg. 1991, bók 28]
  43. Seinheppinn syndaselur (Vito la Déveine 1991) [ísl. útg. 1992, bók 29]
  44. Le rayon noir (1993)
  45. Luna fatale (1995)
  46. Machine qui rêve (1998)
  47. Paris-sous-Seine (2004)
  48. L'homme qui ne voulait pas mourir (2005)
  49. Spirou et Fantasio à Tokyo (2006)
  50. Aux sources du Z (2008)
  51. Zorflónska (Alerte aux Zorkons 2010) [ísl. útg. 2021]
  52. Hin myrka hlið Zorglúbbs (La Face cachée du Z 2011) [ísl. útg. 2021]
  53. Í klóm kolkrabbans (Dans les Griffes de la Vipère 2013) [ísl. útg. 2019]
  54. Vikapiltur á vígaslóð (Le groom de Sniper Alley 2014) [ísl. útg. 2015]
  55. Hefnd Gormsins (La Colère du Marsupilami 2016) [ísl. útg. 2016]
  56. La Mort de Spirou (2022)
  57. La mémoire du futur (2024)


Froskur útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir jólin 2013 hófst útgáfa Svals og Vals-bókanna á íslensku á nýjan leik á vegum Frosks útgáfu, sem er með öllu ótengd fyrri útgefendum. Út hafa komið tólf bindi, fimm þeirra hafa að geyma sögur frá fyrstu árum Franquins en sjö eru nýrri af nálinni.

Litli-Svalur

[breyta | breyta frumkóða]
Sjá nánari umfjöllun á greininni Litli-Svalur

Höfundarnir Tome og Janry sendu frá sér átján bækur á árunum 1990 til 2019 um æskuár Svals. Þær eiga þó lítið skylt við meginsagnaflokkinn annað en nafnið á aðalsöguhetjunni og íkornann Pésa.

Sérstakt ævintýri um Sval...

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 hóf göngu sína nýr bókaflokkur Sérstakt ævintýri um Sval... (franska: Série Le Spirou de…) þar sem einstakir listamenn fengu að semja sjálfstæð ævintýri um Sval og Val, sem teldust þó ekki til aðalbókaflokksins. Flestir höfundanna hafa tekið þann pól í hæðina að fjalla um æskuár Svals og grafa upp gamlar sögupersónur. Auk þess eru vísanir til raunverulegra sögulegra persóna og atburða mun algengari en í aðalflokknum.

  1. Les Géants pétrifiés (2006)
  2. Les Marais du temps (2007)
  3. Le Tombeau des Champignac (2007)
  4. Le Journal d´un ingénu (2008)
  5. Á valdi kakkalakkanna (Le Groom Vert-de-Gris 2009) [ísl. útg. 2023]
  6. Panique en Atlantique (2010)
  7. La Femme léopard (2014)
  8. La Grosse tête (2015)
  9. Fantasio se marie (2016)
  10. La Lumière de Bornéo (2016)
  11. Le Maître des hosties noires (2017)
  12. Il s'appelait Ptirou (2017)
  13. Fondation Z (2018)
  14. Spirou ou l'espoir malgré tout (première partie) (2018)
  15. Spirou ou l'espoir malgré tout (deuxième partie) (2019)
  16. Spirou à Berlin (2019)
  17. Svalur í Sovétríkjunum (Spirou chez les soviets 2020) [ísl. útg. 2023]
  18. Pacific Palace (2021)
  19. Spirou ou l'espoir malgré tout, tome 3 : Un départ vers la fin (2021)
  20. Spirou ou l'espoir malgré tout, tome 4 : Une fin et un nouveau départ (2022)
  21. Spirou et la Gorgone bleue (2023)

Sögurnar um Sval hafa verið gefnar út undir heitinu Robbedoes í Hollandi og hinum flæmskumælandi hluta Belgíu. Árið 2017 kom í fyrsta sinn út saga um Sval og Val sem einvörðungu var hugsuð fyrir hollenska/flæmska markaðinn

  1. Tulpen uit Istanboel (2017)

Svalur & Valur - sérútgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Dupuis-útgáfan hefur sent frá sér fimm bækur í ritröð sem nefnist Svalur & Valur - sérútgáfa (franska: Spirou et Fantasio Hors Série). Bækur þessar hafa að geyma styttri myndasögur og annað aukaefni tengt Sval og Val sem ekki hefur ratað inn í aðalritröðina. Útgáfan hefur verið stopul og nokkuð tilviljanakennd.

  1. L'Héritage (1989) [ísl. útg. 2013 og 2014, Arfurinn - Vitskerti prófessorinn og Svörtu hattarnir]
  2. Radar le robot (1989) [ísl. útg. 2013 og 2014, Arfurinn - Vitskerti prófessorinn og Svalur í hringnum]
  3. La Voix sans maître (2003)
  4. Fantasio et le fantôme (2003)
  5. Les Folles Aventures de Spirou (2017)

Ævintýri Sveppagreifans

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2018 kom út fyrsta bókin í nýjum bókaflokki með Sveppagreifanum í aðalhlutverki eftir listamennina Béka og Etien. Sögurnar segir frá ævintýrum greifans á yngri árum og felur í sér ýmsar sagnfræðilegar vísanir.

  1. Champignac: Enigma (2018)
  2. Patiënt A (2021)
  3. Quelques atomes de carbone (2023)

Ævintýri Zorglúbbs

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2017 hóf göngu sína ný ritröð um ævintýri Zorglúbbs og dóttur hans á táningsaldri. Höfundur hennar er listamaðurinn Munuera sem um tíma var aðalhöfundur Svals & Vals-bókaflokksins. Á meðan Zorglúbb var yfirleitt í hlutverki skúrksins í eldri sögum um Sval & Val, er hann sýndur í jákvæðara ljósi í þessum bókaflokki sem breysk söguhetja sem á í erfiðu sambandi við uppreisnargjarna dóttur.

  1. La fille du Z (2017)
  2. L'apprenti méchant (2018)
  3. Lady Z (2019)

Vehlmann og Yoann, sem sömdu fimm bækur um Sval og Val á árunum 2010 - 2016, hafa samið tvær bækur um Sval þar sem hann er í hlutverki ofurhetju sem kallast Supergroom. Upphaflega birtust sögurnar í Le Journal Spirou[1] og sökum vinsælda þeirra var ákveðið að gefa þær út í bókaformi.[2]

  1. Justicier malgré lui (2020)
  2. La Guerre olympique (2021)
  1. Reporter, Spirou (24. júní 2016). „Found Art Friday: Supergroom – Spirou Reporter“ (bandarísk enska). Sótt 2. október 2024.
  2. Reporter, Spirou (4. febrúar 2017). „Supergroom is here to save the day! – Spirou Reporter“ (bandarísk enska). Sótt 2. október 2024.