Miðnorska
Miðnorska – (norska mellomnorsk) – er tungumál sem talað var í fjölmennustu héruðum Noregs frá því um 1350 og fram yfir siðaskipti, nánar tiltekið fram undir 1600.
Miðnorska er hugtak sem er notað í norskri málsögu um málið sem talað var í Noregi í lok miðalda og kom á milli norrænu (fornnorsku) og nútímanorsku.
Miðnorska málskeiðið er talið hefjast um svartadauða (1349) þegar norskt mál var farið að breytast verulega frá því sem var í fornnorrænu. Þá dó gamla norska ritmálið nánast út því að flestir ritfærir menn dóu úr svartadauða. Um svipað leyti færðist æðsta stjórn ríkisins til Svíþjóðar og síðan Danmerkur. Eftir það varð ritmál í Noregi eins konar blanda af norsku og dönsku. Miðnorska vék smám saman fyrir nútímanorsku og má segja að í fjölmennustu héruðunum sé breytingin um garð gengin á tímabilinu frá siðaskiptum (1546) fram til 1600.
Þess ber þó að geta að í Noregi var mikill munur á mállýskum og mátti fram á 19. öld finna afskekkt sveitahéruð þar sem enn lifðu sterk einkenni úr fornmálinu.
Málið, sem talað var eftir 1600, er í stórum dráttum skiljanlegt Norðmönnum nútímans. Í miðnorsku var aftur á móti ennþá mikið af gömlum orðum og orðasamböndum, auk margra málfræðireglna sem ekki eru lengur notaðar í norsku. T.d. hvarf fallbeyging nafnorða að mestu á miðnorska tímabilinu sem og mikill hluti af beygingu sagnorða.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Mellomnorsk“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. maí 2008.