[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Karl Ágúst Úlfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Ágúst Úlfsson

Karl Ágúst Úlfsson (f. 4. nóvember 1957) er íslenskur leikari, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi og leikskáld. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1977, lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1981 og og hefur síðan leikið á leiksviði í sjónvarpi og kvikmyndum. Karl Ágúst lauk meistaragráðu í leikritun og handritagerð við Ohio University árið 1994. Fjögur verka hans hafa verið sett á svið í Bandaríkjunum; The Guarding Angel, A Guy Named Al, Body Parts og The Iceman Is Here. Meðal leikverka Karls Ágústs sem sýnd hafa verið á Íslandi eru Í hvítu myrkri í Þjóðleikhúsinu, söngleikirnir Fagra veröld, Sól & Máni og Gosi í Borgarleikhúsinu og Ó, þessi þjóð í Kaffileikhúsinu, Stóllinn hans afa sem Hafnarfjarðarleikhúsið sýndi á vinnustöðum og sjónvarpsleikritin Fyrsta atriði, Æ, æ og Ást í bakaríi. Ásamt félögum sínum Erni Árnasyni og Sigurði Sigurjónssyni samdi Karl Ágúst leikritið Harrý og Heimir - Með öðrum morðum og söngleikina Gulleyjuna og Umhverfis jörðina á 80 dögum ásamt Sigurði. Þeir félagarnir Karl, Örn og Sigurður sömdu einnig handrit kvikmyndarinnar Harry og Heimir - Morð eru til alls fyrst. Auk þess hefur Karl þýtt yfir fjörutíu leikverk fyrir útvarp og leiksvið, þar á meðal Pétur Gaut eftir Hendrik Ibsen, Leitt hún skyldi vera skækja eftir John Ford, Sporvagninn Girnd eftir Tennisee Williams og söngleikina Kabarett, Saga úr vesturbænum, Galdrakarlinn í Oz, Rent, Syngjandi í rigningunni, Með fullri reisn, Jesus Christ Superstar og Billy Elliot.

Ef til vill þekkja Íslendingar Karl best sem einn höfunda, leikstjóra og leikara í Spaugstofunni sem hann stofnaði árið 1985 ásamt fjórum félögum sínum. Fyrstu verkefni hópsins voru tvö áramótaskaup á RÚV og útvarpsþættir af ýmsu tagi. Árið 1989 hófu þeir félagarnir að senda út vikulega sjónvarpsþætti, sem fljótlega urðu vinsælasta sjónvarpsefni íslenskrar sjónvarpssögu. Þættirnir báru ýmis nöfn, hétu ýmist '89 á stöðinni, '90 á Stöðinni, '91 á Stöðinni osfrv. og síðan Stöðvarvík, Enn ein Stöðin og loks Spaugstofan. Þeir héldu velli og óskertum vinsældum allt fram á vorið 2010. Haustið eftir var framleiðslu þeirra haldið áfram á Stöð 2 þar sem þeir voru sýndir í fjóra vetur. Með Spaugstofunni hefur Karl Ágúst skapað margar ódauðlegar persónur, svo sem nirfilinn Silla, Geir löggu og Steindór leigubílstjóra í 25 ár. Auk þess hefur hann starfað sem uppistandari og veislustjóri um árabil og með Spaugstofunni hefur hann ferðast um landið með sýningarnar Í gegnum grínmúrinn, Spaugstofan á fleygiferð og Enn einn hringurinn. Árið 2015 hélt Spaugstofan upp á 30 ára afmæli sitt með kveðjusýningunni Yfir til þín á stóra sviði Þjóðleikhússins. Upphaflega var ætlunin að sýna tvær til fjórar sýningar, en á endanum urðu þær um það bil þrjátíu fyrir fullu húsi. Sama árið sýndi RÚV heimildamynd í tíu þáttum um feril Spaugstofunnar undir titlinum Þetta er bara spaug ... stofan.

Spaugstofan var margoft tilnefnd til Edduverðlauna og hlaut verðlaunin tvisvar, í annað skiptið sem Sjónvarpsþáttur ársins og í hitt skiptið sem Skemmtiþáttur ársins.

Að auki hafa verk Karls oft verið tilnefnd til Grímuverðlauna. Sem dæmi má nefna Gosa (Barnasýning ársins), Pétur Gaut (vann Sýningu ársins) og Ómerktan ópus í Cmoll (Útvarpsleikrit ársins).

Karl hefur einnig lagt nokkra stund á kennslu, bæði í leikritun og skapandi skrifum og meðal annars kennt við Háskóla Íslands, Endurmenntunarstofnun, Listaháskóla Íslands, Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga, Leiklistarskóla Færeyja og Mesa State College í Colorado. Auk þess hefur hann flutt fjölda fyrirlestra um kímni, hlátur og gildi þess að brosa í lífinu. Hann hefur einnig verið virkur í félagsstörfum, meðal annars starfað í stjórn Félags íslenskra leikara og Félags leikskálda og handritahöfunda auk þess sem hann sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands í níu ár. Nýverið hefur Karl bætt við sig enn einu starfsheitinu en það er trumbuleikari og stjórnandi trumbuhringja. Karl hefur sótt námskeið í trommuleik og afríkutöktum víða um heim og hefur síðan verið iðinn við að kynna þetta nýjasta áhugamál sitt fyrir landanum.

Í samvinnu við Ásdísi Olsen, fyrrverandi konuna sína skrifaði Karl bækurnar Ég er bara ég, Kynlega klippt og skorið og Kynlíf, en þær eru kennslubækur í lífsleikni fyrir efri deildir grunnskóla og árið 2007 hlutu þau Ásdís Íslensku Menntaverðlaunin fyrir brautryðjendastarf á sviði námsefnisgerðar. Sama ár var hann útnefndur Bæjarlistamaður Garðabæjar. Karl rekur bókaútgáfuna Undur og Stórmerki, sem einbeitir sér að útgáfu bóku sem snerta lífsleikni, mannrækt og leitina að lífshamingjunni. Þekktustu útgáfur forlagsins eru Meiri hamingja eftir Tal Ben-Shahar og barnabækurnar um Bjarnastaðabangsana.

Árið 2015 gáfu Undur og Stórmerki út bókina Aþena, Ohio, en það er safn örsagna eftir Karl Ágúst, sem hann skrifaði á árunum 1992-'94 þegar hann var í námi í Bandaríkjunum.

Árið 2018 frumsýndi hann fjölskylduleikverkið Í skugga Sveins og er byggt á verki Matthíasar Jochumssonar um Skugga-Svein, það var sýnt í Gaflaraleikhúsinu 2018.

Í viðtali í mars frá 2022 sagði Karl að leiklistarferill hans myndi enda með sýningunni Fíflið sem að var sýnd í Tjarnarbíó haustið 2022. Hann ætlar nú að einbeita sér frekar að rithöfundaferlinum.

Ferill í íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum

[breyta | breyta frumkóða]
Ártal Kvikmynd/Þáttur Hlutverk Athugasemdir og verðlaun
1978 Skólaferð
1981 Útlaginn Fíflið
Jón Oddur & Jón Bjarni Sundlaugavörður
1983 Nýtt líf Daníel Ólafsson
1984 Dalalíf Daníel Ólafsson
1985 Löggulíf Daníel Ólafsson
Áramótaskaup 1985 Ýmsir
1986 Áramótaskaup 1986 Ýmsir
1987 Tilbury
1989 89 á stöðinni Ýmsir
1990 90 á stöðinni Ýmsir
1991 91 á stöðinni Ýmsir
1992 92 á stöðinni Ýmsir
1995 Einkalíf Bóbó
1995 Áramótaskaup 1995
1996 - 1999 Enn ein stöðin Ýmsir
2001 Áramótaskaup 2001
2002 - 2016 Spaugstofan
2002 Áramótaskaup 2002 Björn Bjarnarsson
2003 Áramótaskaup 2003
2004 Áramótaskaup 2004
2006 Áramótaskaup 2006
2011 Heimsendir Karl Magnús
2012 Áramótaskaup 2012
2014 Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst Harry
2015 Case Axel
2021 Birta Húsvörður Síðasta kvikmyndahlutverk
2022 Áramótaskaup 2022 Hann sjálfur