[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Greifinn af Monte Cristo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greifinn af Monte Cristo
Auglýsing fyrir myndskreytta útgáfu af Greifanum af Monte Cristo eftir Paul Gavarni og Tony Johannot.
HöfundurAlexandre Dumas eldri
Upprunalegur titillLe Comte de Monte-Cristo
ÞýðandiAxel Thorsteinson (1926-1943)
Ólafur Þ. Kristjánsson (1944)
LandFrakkland Fáni Frakklands
TungumálFranska
ÚtgefandiJournal des débats
Útgáfudagur
1844–1846 (sem framhaldssaga)

Greifinn af Monte Cristo (Le Comte de Monte-Cristo á frönsku) er frönsk skáldsaga eftir Alexandre Dumas eldri sem kom út í hlutum árin 1844-1846. Sagan er að hluta til byggð á sönnum atburðum úr lífi skósmiðsins Pierre Picaud.[1]

Bókin segir frá ungum sjómanni að nafni Edmond Dantès og hefst í byrjun valdatíðar Loðvíks 18. Þann 24. febrúar 1815, daginn sem Napóleon Bónaparte snýr aftur úr útlegð frá Elbu, heldur Dantès til Marseille til að fjármagna brúðkaup sitt við unnustu sína, katalónsku draumadísina Mercédès. Dantès er svikinn af öfundsjúkum „vinum“ sínum og framseldur yfirvöldum sem stuðningsmaður Napóleons. Er hann síðan lokaður inni í fangaklefa í fangelsinu Château d'If á eyju við strendur Marseille. Dantès situr í fangelsinu í fjórtán ár og vingast við fanga að nafni Faria ábóti, sem hjálpar honum loks að flýja úr haldi. Áður en Faria andast lætur hann Dantès vita af fjársjóði á eynni Monte Cristo og eftirlætur hann Dantès. Dantès fer því frjáls út í heim með peninga og völd í farteskinu og sækist eftir hefnd gegn þeim sem komu honum í fangelsi. Þetta gerir hann undir dulnefninu greifinn af Monte Cristo.

Ásamt Skyttunum þremur er Greifinn af Monte Cristo ein þekktasta bók Alexanders Dumas. Hún var í upphafi gefin út í hlutum í tímaritinu Journal des débats. Fyrsti hlutinn kom út 28. ágúst til 19. október 1844, annar hlutinn 31. október til 26. nóvember sama ár og sá þriðji frá 20. júní 1845 til 15. janúar 1846.

Greifinn af Monte Cristo hefur komið út í íslenskum þýðingum eftir Axel Thorsteinson og Ólaf Þ. Kristjánsson.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Peuchet, Jacques, Mémoires tirés des archives de la police de Paris, depuis Louis XIV jusqu'à nos jours, A. Levavasseur et cie (1838), bls. 207.